Lýðræðisflokkurinn styður karlaathvarf

Lýðræðisflokkurinn styður karlaathvarf

Helga Dögg Sverrisdóttir skrifar

Öllum er ljóst karlar verða líka fyrir heimilisofbeldi. Minna um það talað og lítið gert til að aðstoða þá sem í því lenda. Oft eru þeir sem lenda í ofbeldi af hálfu konu smánaðir, af lögreglu, vinum og ættingjum. Þeir geta farið mjög illa út úr ofbeldinu.

Samtök um karlaathvarf

Samtökin sendu nokkrar spurningar til allra stjórnmálaflokka til að kanna hug þeirra. Eini flokkurinn sem svarar já við öllum spurningunum er Lýðræðisflokkurinn.
Spurt var um afstöðu flokkanna til eftirfarandi:

  1. Telur stjórnmálaflokkurinn að rétt sé að karlkyns þolendur ofbeldis hafi aðgang að sambærilegri þjónustu og kvenkyns þolendur ofbeldis?
  2. Telur stjórnmálaflokkurinn þörf á athvarfi fyrir karlmenn, í líkingu við þá þjónustu sem kvenkyns þolendur ganga að vísri?
  3. Mun flokkurinn beita sér fyrir því á Alþingi að karlkyns þolendur hafi aðgang að sambærilegri þjónustu og kvenkyns þolendur ofbeldis?

Það var eftirtektarvert að flokkarnir sem sitja í stjórn, sem hafa ekki sinnt málaflokknum, sögðu ef þörf er á. Þeir sem fara fyrir samtökum um karlaathvarf hafa hvað eftir annað óskað eftir aðstoð ríkisins til að koma slíku athvarfi á laggirnar. Ekkert hefur gerst sl. sjö ár. Svandís Svavarsdóttir gaf Kvenréttindafélagi Íslands 2 milljónir daginn áður en hún lét af embætti. Ekki króna til karlaathvarfs í stjórnartíð VG, Framsóknar og Sjálfstæðismanna.

Karlar verða fyrir ofbeldi, andlegur og líkamlegu

Til eru rannsóknir sem sýna að ofbeldi af hálfu kvenna er staðreynd. Lýðræðisflokkurinn telur að ekki eigi að halla á annað kynið þegar aðstoða á þessa hópa. Ofbeldi er ofbeldi burtséð frá hver veldur og verður fyrir því. Það er jafn afdrifaríkt fyrir karla og konur að verða fyrir ofbeldi í nánu sambandi. Karlar verða oftar fyrir ofbeldi á götu úti og af ókunnugum.

Sálfræðingur sem hefur fylgst með málaflokknum til fjölda ára skrifar: ,,Fjölmargar alvöru rannsóknir hafa t.d. sýnt fram á, að kynin berja hvort annað nokkurn veginn til jafns. Það er enn fremur ljóst öllu hugsandi fólki, að kynin sína yfirgang og ofbeldi með mismunandi hætti. Í því efni mega konur það, sem körlum líðst ekki. Kinnhest skulu karlar t.d. þola. En öðru máli gegnir um konur. Tilkynni karlar um kynofbeldi er skellihlegið að þeim. Öðru máli gegnir um konur. Körlum hefur enn ekki dottið í hug að skapa múgæsingu…“

Jafnt fyrir bæði kynin

Sé okkur umhugað að veita þjónustu vegna ofbeldis á jafnréttisgrundvelli þá eigum við líka að styðja karlmennina. Reynt hefur verið til fjölda ára að stofna karlaathvarf en ekkert orðið úr þar sem fjárstyrk vantar frá ríkinu líkt og athvörf fyrir konur fá. Hér gætir ríkið ekki að jafnréttishugsjóninni enda hafa þeir flokkar sem nú sitja á þingi sýnt og sannað að þeim sé frekar umhugað um konur í þessum aðstæðum en körlum.

Við þurfum að gera betur fyrir karlpeninginn þegar kemur að ofbeldi gegn þeim. Lýðræðisflokkurinn mun beita sér fyrir að Karlaathvarf rísi til að taka á afleiðingum ofbeldis sem karlar verða fyrir.
Í stefnu flokksins segir ,, Heilbrigðisþjónusta verði betur tryggð með skynsamlegri blöndu opinbers rekstrar og einkarekstrar. Framfarir, fagmennska, samkeppni, hagsýni og skynsamlegt aðhald eru hornsteinar góðrar heilbrigðisþjónustu.“ Með því að fela einkaaðilum reksturs Karlaathvarfs líkt og Kvennaathvarf látum við okkur bæði kynin varða í þessum málaflokki.

Höfundur er grunnskólakennari, sjúkraliði og skipar 2. sæti á framboðslista Lýðræðisflokksins í Norðausturkjördæmi fyrir komandi Alþingiskosningar.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó