Maðurinn sem ógnaði fólki með pinnabyssu leiddur fyrir dómara í dag

Maðurinn sem ógnaði fólki með pinnabyssu leiddur fyrir dómara í dag

Maður vopnaður pinnabyssu var handtekinn aðfaranótt föstudags sl. á Svalbarðseyri eftir að sást til hans á almannafæri handleika vopnið. Pinnabyssa er skammbyssa sem notuð er til þess að aflífa stórgripi.

Ógnaði að minnsta kosti tveimur mönnum með byssunni
Lögreglunni á Norðurlandi eystra barst tilkynning kl. 03:03 föstudaginn 20. júlí og sendi þá vopnaða lögreglumenn á svæðið. Eftir nokkra rannsóknarvinnu bárust böndin að húsi í þorpinu og reyndist maðurinn vera þar. Hann var handtekinn og sýndi ekki mótspyrnu. Vopnið fannst í fórum hans, en maðurinn var í annarlegu ástandi. Þá hafði hann ógnað að minnsta kosti tveimur öðrum mönnum með byssunni.

Færður á ný í fangelsi
Maðurinn, sem er á fertugsaldri, tók byssuna ófrjálsri hendi úr húsi á Svalbarðseyri. Hann var leiddur fyrir dómara í dag þar sem kom í ljós að hann var þegar á reynslulausn þegar þetta mál kom upp. Dómari við Héraðsdóm Norðurlands eystra úrskurðaði í dag að hann skuli færður á ný í fangelsi til að afplána eftirstöðvar dóms síns. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni í dag þar sem segir einnig að rannsókn málsins sé langt komin.

UMMÆLI

Sambíó