Málmiðnaðarnemar í Verkmenntaskólanum á Akureyri verulega ósáttir – Fá ekki að útskrifast um jólin eins og þeim var lofað

Aron Freyr birti þessa mynd af málmiðnaðarnemunum samankomnum með færslunni.

Málmiðnaðarnemar í Verkmenntaskólanum á Akureyri eru alls ekki sáttir við þá meðferð sem þeir hafa fengið ef marka má færslu sem Aron Freyr Ólason, nemi, birti á facebook-síðu sinni í dag. Þar lýsir hann því hvernig ný námsskrá frá Menntamálaráðuneytinu fari á mis við það sem skólinn hafði lofað þeim, þ.e .að þeir fengju að þreyta sveinspróf og útskrifast um næstkomandi jól. Vegna breytingar á námsskránni stefnir í það að málmiðnaðarnemarnir þurfi að bíða í hálft eða eitt ár eftir að útskrifast sem málmiðnaðarmenn. Hann heldur því fram að þetta sé enn eitt dæmið um hvernig iðnaðarnám á Íslandi mætir algjörum afgangi hjá menntakerfi landsins. Pistilinn hans Arons má lesa í heild sinni hér að neðan: 

Ég og þessir drengir hér erum allir á málmiðnaðarbraut við Verkmenntaskólann á Akureyri. Við erum þrettán talsins og erum stærsti hópur málmiðnaðarnema á landinu. Við erum mjög áhugasamir um okkar nám og margir mjög klárir og tilbúnir að takast á við lífið eftir skóla og að ná að klára þetta nám. Fyrir áramót var okkur öllum sagt að útskrift væri á boðstólnum núna um jólin 2018 og við þær fregnir vorum við búnir að segja fjöldskyldu og vinum frá þessum fréttum og margir af okkur farnir að gera áætlanir fyrir sín framtíðarstörf og jafnvel einhverjir að fara í áframhaldandi nám annarsstaðar.

Um miðja þessa önn fengum við þær ömurlegu fréttir að útskrift væri allt í einu ekki á boðstólnum jólin 2018 vegna nýrra námsskráar sem kom inn eftir áramótin frá menntamálaráðuneytinu. Og það hljómar svo að nemandi sem á meira en 3 mánuði eftir af sínum námssamningi fær ekki að koma inn á lokaönn. Þetta var ekki svona fyrir ári síðan, þetta er dálítið högg fyrir okkur þar sem við erum 6 talsins sem erum búnir með samning en sumir ekki sem segir okkur það að við sem erum 6 getum ekki einu sinni farið á lokaönn vegna þess að skólin hefur ekki fjármuni til að halda uppi kennslu fyrir svo fáa nemendur á þeirri önn en við höfum fengið að heyra það að talan sé svona um 10 manns og yfir til að hægt sé að halda brautinni gangandi…

Þetta þýðir það að útskrift er ekki í boði fyrr en eftir ár og sveinsprófið hjá sumum okkar mun þá dragast um líklega ár í viðbót. Er þetta eitthvað grín? Það má líka bæta inn í þetta að við iðnnemar sem fengum þessa nýju námsskrá í andlitið þurftum að fylgja henni strax og fáum við þá ekki að klára á þeirri gömlu en allir sem eru á bóklegum brautum mega klára bara á sinni gömlu námsskrá og útskrifast með engum hömlum… Það eru mörg svona dæmi að iðnnemar hafi þurf að bíða hátt í 3 ár eftir að fá að útskrifast vegna þess að skólinn á ekki fjármagn til að halda uppi sumum brautum. Ég ætla að nefna hér píparastéttina og bifvélavirkja sem hafa mátt þola þetta sem mest. Af hverju er þá skólinn að auglýsa þetta nám ef þeir geta ekki einu sinni lofað námslokum á ýmsum brautum? Ekki stendur það í brautarlýsingunni…

Mikill skellur fyrir okkur sem vorum búnir að plana, eins og ég nefndi áðan, áframhaldandi nám og verkefni á núverandi vinnustöðum. Þetta er nefnilega ekki bara tap fyrir okkur heldur okkar vinnuveitendur líka því það er dýrt fyrir fyrirtæki að hafa menn í vinnu sem eru í námi. Við erum hverjir að halda uppi húsnæði, fjöldskyldu, bíl og öllu því sem fylgir, það er ekkert djók að vera í fullum skóla og vinna með því, það ættu held ég andskoti margir námsmenn á íslandi að vita.

Menntakerfið er í molum hérna á íslandi og kannski sérstaklega iðnnámið þar sem gömul gildi eru löngu komin á tíma og gerðu það líklega fyrir 10 eða 15 árum síðan. Okkar nágrannaþjóðir í Svíþjóð, Danmörku og Noregi eru komin svo langt á undan okkar í kerfisskipulagi í sambandi við iðnnám. Það er vöntun á málmiðnaðarmönnum á Íslandi og bara iðnaðarmönnum yfir höfuð og ef menntakerfið er að bregðast okkur svona ár eftir ár þá verður þetta nám ekkert spennandi og það vill þá engin leita í það og það verður halli á iðnaðarmönnum á Íslandi eftir nokkur ár.

Ég gæti tuðað og tuðað um þetta á svo mörgum blaðsíðum að ég ákvað að leyfa ykkur að fá smá slepju af þessu. Ég vil hinsvegar þakka stuðninginn sem kom frá okkar fyrirtækjum og okkar stéttarfélögum en þau hafa gert hvað þau geta til að laga stöðuna því ekki gátu blessaðir excel sérfræðingarnir frá Menntamálaráðuneytinu hjálpað okkur. Þetta virðist allt vera að renna í burtu frá okkur og þurfum við þá að bíða í hálft ár eða ár eftir útskrift og sveinsprófið eitthvað lengur. Ráðuneytið, menntakerfið og skóli eru að bregðast okkur. Ég ætla að vona að menntamálaráðherra fari nú að girða sig og geri eitthvað róttækt í þessum málum.

UMMÆLI

Sambíó