Manni gert að sæta nálgunarbanni fyrir ofbeldi gegn konu

Manni gert að sæta nálgunarbanni fyrir ofbeldi gegn konu

Maður sem grunaður er um að hafa beitt konu ofbeldi sætir nú þriggja mánaða nálgunarbanni. Konan hafði nýlega gengist undir aðgerð þegar ofbeldið átti sér stað, skv. greinargerð Lögreglustjórans á Norðurlandi.

Tengsl einstaklinganna eru ekki þekkt en ýmislegt bendir til þess að þau hafi átt í ástarsambandi. Maðurinn sem um ræðir er einnig sagður hafa veist af föður þolandans við tilraunir hans til að ræða við manninn.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að maðurinn hafi byrjað að rífa í hana og þá hafi blæðing úr skurði konunnar hafist. Einnig kemur fram að maðurinn hafi gripið í hana, dregið hana niður á gólf og eftir gólfinu þar sem hann tuskaði hana til. Auk þess segir að hann hafi stigið með öðrum fæti á bringu hennar og háls, kýlt hana í brjóst og hægri öxl og tekið hana hálstaki. Einnig ýtti hann á skurðsár hennar sem varð til þess að konan lamdi frá sér, í höfuð og herðar karlmannsins.

Loks flúði konan heimilið með dóttur sinni og fór til föður síns. Síðar sama dag fóru feðginin saman að ræða við karlmanninn, þar sem hann veittist þá að föðurnum.

Bæði héraðsdómur og Landsréttur komust að sömu niðurstöðu að nálgunarbann væri við hæfi. Þá var sérstaklega litið til fyrri dóms karlmannsins sem dæmdur hafði verið í 45 daga fangelsi árið 2021 fyrir líkamsárás á konuna. Karlmaðurinn má ekki kom innan við 25 metra að heimili konunnar og ekki setja sig í samband við hana, hvorki í almannarýminu né annars staðar.

UMMÆLI