Markaðssetja Eyjafjarðarsveit og Kaffi Kú á alþjóðavísu sem The Secret Circle

Startup Tourism leitar árlega eftir ferskum hugmyndum sem stuðla að dreifingu ferðamanna um land allt og í ár bárust þeim 113 umsóknir en úr þeim hópi voru 25 aðilar fengnir í viðtöl. Í kjölfarið voru 10 hugmyndir valdar úr þeim hópi og Kaffi Kú og the Secret Circle varð ein þeirra.

Hjónin Sesselja Ingibjörg Barðdal Reynisdóttir og Einar Örn Aðalssteinsson eiga og reka saman kaffi- og veitingahúsið Kaffi Kú í Eyjafjarðarsveit. Þau sendu inn viðskiptahugmynd á sviði nýsköpunar í ferðaþjónustu til Startup Tourism verkefnisins um að markaðssetja Eyjafjarðarsveit og voru valin úr hópi rúmlega hundrað umsækjenda.

Leyndardómurinn á bakvið Akureyri: The Secret Circle
Hugmyndin byggir á því að markaðssetja Eyjafjarðarsveit sem The Secret Circle, eða leyndardómurinn á bakvið Akureyri. Þetta er hugsað til þess að kynna fyrir ferðamönnum þá gríðarlegu uppbyggingu sem hefur átt sér stað í Eyjafjarðarsveit undanfarin ár en fjöldinn allur af kaffihúsum, gistiheimilum og annarri afþreyingu er í boði á svæðinu en fáir vita af. ,,Það er nóg um að vera í sveitinni og þetta er ekki eins langt frá Akureyri og fólk heldur, Kaffi Kú er t.a.m. í aðeins 10 mínútna akstursfjarlægð. Þessi hugmynd var upphaflega hugsuð til að markaðssetja Kaffi Kú á stærri hátt en svo vonum við að allir komi bara með í bátinn ef þetta gengur upp. Því fleiri því betra,“ segir Sesselja bjartsýn.

Kýrnar liggja á dýnum og mjólka sig sjálfar þegar þeim hentar
Kaffi Kú er lítð kaffihús eða veitingastaður sem er staðsettur í Eyjafjarðarsveit. Þetta er þó með allt öðruvísi sniði en hefðbundin kaffihús því þarna er svo kallað hátæknifjós. Þar fá kýrnar að leika lausum hala, fara sjálfar og láta mjólka sig í tækjunum þegar þeim hentar og liggja þess á milli á dýnum og hafa það náðugt. Svo fylgist fólkið með meðan það gæðir sér á veitingum og fræðist um landbúnað. Hugmyndin að staðnum er byggð á því að fræða fólk á skemmtilegan hátt um landbúnað, tæknina og íslenska sveit yfir höfuð, hvernig hún var, er og hvernig hún er að þróast.

Dætur þeirra Sesselju og Einars hafa gaman að því að leika sér við kýrnar á Kaffi Kú.

Sesselja segir marga hafa verið forvitna þegar þau byrjuðu með þetta hátæknifjós en fólk átti erfitt með að trúa því hvernig þetta gæti virkað fyrir sig. Hvernig er eiginlega hægt að kenna beljunum þetta?
,,Ég er sko engin sveitastelpa sjálf og hef spurt sennilega allar heimskulegar spurningar í heiminum um landbúnað. Maðurinn minn er hins vegar frá Garði, sama stað og Kaffi Kú er staðsett, og pabbi hans og bræður reka þetta bú í Eyjafjarðarsveit. Þetta byrjaði með því að Akureyringar og nærsveitafólk fór að kíkja við í forvitni til að sjá hvernig þetta virkaði fyrir sig. Á sama tíma var maðurinn minn að læra viðskiptafræði og sá tækifæri þarna. Hann skellti sér á nýsköpunarnámskeið og þannig varð þessi hugmynd til,“ segir Sesselja en sjálf er hún lærður framreiðslumaður og þannig gátu þau nýtt þekkingu sýna saman og stofnað Kaffi Kú.

,,Við gerum okkur fulla grein fyrir því að fjósalyktin hentar ekki öllum“
Startup verkefnið er í rauninni styrkur þó ekki sé um fjármagn að ræða en þetta er sérstakur viðskiptahraðall þar sem þessir tíu aðilar fá fræðslu og þjálfun undir leiðsögn reyndra frumkvöðla, fjárfesta og lykilaðila í ferðaþjónustu til að gera hugmyndina að veruleika á stuttum tíma.
,,Hugmyndin með þessum viðskiptahraðali er að búa til fræðsluapp og bæta markaðssetningu til að koma því betur til skila hvað við erum að gera. Þegar fólk kemur á kaffihúsið þá kemur það inn og veit í rauninni ekkert hvað það er að fara að sjá eða gera. Við gerum okkur algjörlega grein fyrir því að beljur, sveit og fjósalykt hentar ekki öllum. Það eru margir sem hugsa bara: erum við að fara í eitthvað fjós? Ég veit ekki með það… En þegar fólk kemur og við segjum þeim söguna, hvernig þetta virkar og hvað það er að gera þarna þá breytist yfirleitt einn kaffibolli í þriggja rétta máltíð því fólk er hrifið af upplifuninni,“ segir Sesselja.

Sesselja Ingibjörg og Einar Örn eru fjölskyldufólk búsett á Akureyri.

Þau hjónin eru viss um að The Secret Circle markaðssetningin geti haft gríðarleg áhrif á ferða- og veitingaþjónustu í Eyjafjarðarsveit og eru spennt að takast á við verkefnið.

Greinin birtist upphaflega í fréttablaðinu Norðurlandi þann 11. janúar. 

Abbababb

UMMÆLI

Abbababb