Miguel Mateo Castrillo hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við blakdeild KA og mun því áfram stýra karla- og kvennaliðum KA í blaki ásamt því að leika áfram með karlaliðinu. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef KA.
„Þetta eru ákaflega jákvæðar fréttir enda hafa bæði lið verið afar sigursæl undir stjórn Mateo en bæði lið hömpuðu meðal annars öllum þeim titlum sem í boði voru á nýliðnum vetri og eru því Íslands-, Bikar- og Deildarmeistarar. Mateo hefur á sama tíma verið einn allra besti leikmaður landsins og verið ósjaldan stigahæsti leikmaður efstudeildar,“ segir á vef KA.
Mateo mun nú einnig taka við yfirþjálfun allra yngri flokka hjá félaginu. „Við bindum miklar vonir við að það muni lyfta okkar öfluga starfi upp á enn hærra plan en lið KA hömpuðu ófáum Íslands- og Bikarmeistaratitlum í yngriflokkunum í vetur auk þess sem mikil fjölgun hefur verið á iðkendum undanfarin ár.“
UMMÆLI