Matthías Íslandsmeistari í Krikket

Matthías Íslandsmeistari í Krikket

Matthías Örn Friðriksson, einn fremsti pílukastari landsins, varð um helgina Íslandsmeistari í Krikket, ákveðnu keppnisformi pílukasts. Matthías gekk til liðs við Píludeildar Þórs á Akureyri fyrir skömmu og er þetta fyrsti titill hans í búningi Þórsara sem píluspilari.

Matthías Örn mætti Árna Ágústi Daníelssyni í úrslitaleik mótsins og vann örugglega 6-2.

Krikket er keppnisform í pílu þar sem leikmenn fá einungis stig fyrir að kasta í 20, 19, 18, 17, 16, 15 og í „bullseye“ miðjuna, til skilnaðar við meira hefðbundna pílu þar sem keppendur reyna að ná sem hæstu skori og komast á fljótlegastan hátt frá ýmist 501, 301 eða 170 niður í 0.

Matthías varð einnig Íslandsmeistari í hefðbundinni Pílu í vor en þá spilaði hann fyrir Píludeild Grindavíkur.

„Alls ekki fyrsti titill Matta á ferlinum en sá fyrsti í búningi Þórs og vonandi verða þeir mun fleiri!“ segir í tilkynningu á vef Þórsara.

Íslandsmótið í Krikket var spilað nú um helgina í aðstöðu Pílukastfélags Reykjavíkur að Tangarhöfða 2 og var mótið í beinni útsendingu á YouTube síðu Live Darts Iceland.

UMMÆLI

Sambíó