„Með ábyrgum rekstri skapast tækifæri til framfara“

„Með ábyrgum rekstri skapast tækifæri til framfara“

Níu flokkar bjóða fram í bæjarstjórnarkosningum á Akureyri sem fara fram 14. maí næstkomandi. Oddvitar flokkanna segja frá helstu stefnumálum á Kaffið.is ásamt því að svara spurningum um ákveðin hitamál úr bæjarmálaumræðunni undanfarin ár.

Í dag situr Heimir Örn Árnason, oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, fyrir svörum, og segir okkur frá helstu stefnumálum flokksins.

Sjá einnig:

Snorri Ásmundsson – Kattaframboðið

Hilda Jana Gísladóttir – Samfylkingin

Hrafndís Bára Einarsdóttir – Píratar

Sunna Hlín Jóhannesdóttir – Framsókn

Gunnar Líndasl Sigurðsson – L-listinn

Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir – VG


Hver eru ykkar helstu stefnumál fyrir komandi kosningar?

Traust og ábyrg fjármálastjórn er að mati Sjálfstæðisflokksins grunnforsenda þess að rekstur sveitarfélagsins verði tryggður til framtíðar. Sjálfstæðisflokkurinn mun leggja áherslu á vandaða áætlanagerð og eftirfylgni þannig að rammi fjárhagsáætlunar hvers árs verði virtur.

Það verði gjaldfrjáls leikskóli. Leikskóli er fyrsta skrefið í skólagöngu barna og með niðurfellingu dvalargjalda er Sjálfstæðisflokkurinn að viðurkenna leikskólann sem fyrsta skólastig barna og hampa því faglega og góða starfi sem fram fer í leikskólum sveitarfélagsins. Sjálfstæðisflokkurinn mun jafnframt áfram vinna markvisst að því að fundinn verði lausn til frambúðar svo að tryggja megi öllum 12 mánaða börnum leikskólapláss í sveitarfélaginu

Sjálfstæðisflokkurinn leggur ríka áherslu á að stoðþjónusta leik- og grunnskóla færist í auknum mæli inn í skólana sjálfa þannig að nemendur fái viðeigandi þjónustu sérfræðinga, s.s. talmeinafræðinga, sálfræðinga og þroskaþjálfa innan veggja skólans. Einnig er mikilvægt að kennarar hafi greiðan aðgang að stuðningi og ráðgjöf hvort heldur sem er kennsluráðgjafa eða annarra fagstétta.

Með þessu vill Sjálfstæðisflokkurinn leggja sitt af mörkum til þess að einfalda líf barna sem þurfa á stoðþjónustu að halda og fjölskyldna þeirra og tryggja að öll þjónusta standi þeim til boða á skólatíma.

Hvaða aðgerðir stefnið þið á ef þið komist að í bæjarstjórn?

 • Gjaldfrjáls vistun í leikskóla fyrir öll börn frá 12 mánaða aldri.
  • Akureyrarbær verði áfram leiðandi í umhverfismálum. Skapaður verði vettvangur fyrir     einkaaðila,fyrirtæki og stofnanir til aðkolefnisjafna starfsemi sína.
  • Akureyrarbær losi um fjármagn sem bundið er í fasteignum.
  • Framboð íbúða- og atvinnulóða verði tryggt í sveitarfélaginu og efnt verði til  hugmyndasamkeppni um uppbyggingu á Akureyrarvelli.
  • Áframverði tryggð góð þjónusta við fatlað fólk og hún bætt þar sem á við.
  • Bætt þjónusta við eldri borgara og Akureyrarbær verði leiðandi í lausnum á sviði velferðartækni.
  • Stafræn þjónusta við íbúa og fyrirtæki verði aukin til muna.
  • Akureyrarbær verði áfram heilsueflandi samfélag þar sem sérstök áhersla verði lögð á lýðheilsu eldri borgara.
  • Frístundastyrkur hækkaður í 50.000 kr. og frístundastrætó verði komið á. 
  • Áfram verði hlúðað starfsemi íþróttafélaga í sveitarfélaginu og leitað leiða til að mæta þörfum    þeirra til frekari uppbyggingar.
  • Kynja- og jafnréttissjónarmið verði höfð að leiðarljósi í allri starfsemi Akureyrarbæjar. 
  • Ráðist verði í átak til þess að fjölga íbúum og atvinnutækifærum í sveitarfélaginu. 
  • Klára fyrirhugaða uppbyggingu á íþróttasvæði KA og flýta fyrir uppbyggingu á Þórssvæðinu með góðu samstarfi við Þór og UFA.
  • Menningarlíf verði áfram atvinnuskapandi og fjölbreytt öllum bæjarbúum til ánægju og fróðleiks. 

Hver er stefna ykkar þegar kemur að lausagöngu katta?

Þetta mál er viðkvæmt og hefur því miður fengið alltof mikla athygli í okkar frábæra bæjarfélagi. En nú er vonandi komin lausn sem að flestir verða sáttir með í framtíðinni.

Hver er ykkar stefna í skipulagsmálum á Akureyri?

Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að setja aukna fjármuni í skipulagsmál þannig að hægt verði að ráðast hraðar í skipulagningu íbúðarlóða í sveitarfélaginu. Taka þarf upp aðalskipulag og tryggja að á hverjum tíma verði lausar lóðir fyrir íbúðar- og atvinnuhúsnæði til að mæta uppbyggingarþörf og fjölgun íbúa. 

Með breyttri notkun Akureyrarvallar hefur skapast tækifæri til þess að skipuleggja eftirsótt byggingarland í hjarta Akureyrarbæjar til framtíðar og byggja upp aðlaðandi svæði fyrir íbúðabyggð og þjónustu. Sjálfstæðisflokkurinn mun efna til hugmyndasamkeppni um framtíðar uppbyggingu og nýtingu svæðisins með það að markmiði að hámarka verðmæti þess með hagsmuni sveitarfélagsins að leiðarljósi og tryggja um leið að til verði eftirsóknarvert svæði fyrir íbúa bæjarins og gesti hans.

Við viljum tengja byggingarlandið við Oddeyrina og þar með byrja löngu tímabæra uppbyggingu á Oddeyrinni. Þannig skapast enn frekari tækifæri hvað varðar uppbyggingu á Oddeyri og í framtíðinni má sjá það fyrir sér að svæðið allt verði í hugum fólks miðbæjarsvæði bæjarins.

Fyrirhuguð uppbygging við Tónatröð er að mörgu leyti spennandi verkefni sem þarf að leysa í sátt við alla hagsmunaaðila. Sjálfstæðisflokkurinn telur það raunar mikilvægt, burtséð frá þessu verkefni, að þess verði almennt gætt að uppbygging á þéttingarreitum falli sem best að þeirri byggð sem fyrir er þannig að uppbyggingin fullnægi þeim markmiðum sem að er stefnt.

Hver er stefna ykkar í uppbyggingu íþróttamannvirkja á Akureyri?

Öflugt íþrótta- og æskulýðsstarf hefur einkennt Akureyri og mikilvægt er að svo verði áfram. Mikill uppgangur hefur verið undanfarin ár í yngri flokka starfi í mörgum íþróttagreinum og mikið um faglegt og metnaðarfullt starf hjá íþróttafélögum á Akureyri. Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á mikilvægi þess að áfram verði stutt dyggilega við bakið á grasrótarstarfi íþróttafélaganna í bænum. Þannig telur Sjálfstæðisflokkurinn að sá uppgangur og það öfluga starf sem unnið er hjá íþróttafélögunum, samfélaginu til heilla, haldi áfram. Við teljum mikilvægt að halda áfram að byggja upp aðstöðu til íþróttaiðkunar af krafti. Við viljum klára uppbyggingu á KA svæðinu á kjörtímabilinu og flýta fyrir uppbyggingu á Þórsvæðinu í samstarfi með UFA og Þór.

Við teljum mikilvægt að færa vetraraðstöðu Golfklúbbs Akureyrar upp á Jaðar sem fyrst. 

Við vonumst til að uppbygging í Hlíðarfjalli fari af stað sem fyrst með samvinnu við einkaaðila og ríki. Hlíðarfjall er eitt af okkar helsta aðdráttaraflið í ferðaþjónustu á svæðinu og er því gríðarlega mikilvægt í framtíðaruppbygginguhorfum ferðaþjónustunnar á Akureyri. 

Sundlaug Akureyrar er ein glæsilegasta sundlaug landsins og gríðarlega vinsæl hjá íbúum og gestum bæjarins. Við þurfum að hlúa að þeirri glæsilegu aðstöðu áfram enda höfum við verið stolt af því að geta boðið gestum okkar upp á alla þá aðstöðu sem þar er í boði og viljum að svo verði áfram. Við munum hefja samtalið við sundfélagið um uppbyggingu á svæðinu á næstkomandi árum. Við munum einnig skoða vel nýtingarmöguleika á Glerárlaug sem þjónar ákveðnum hópi fólks mjög vel.

Hver er stefna ykkar í umhverfismálum á Akureyri?

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á grænar lausnir í rekstri sveitarfélagsins og að aðgerðir þess í umhverfismálum verði sýnilegar. Þá leggur Sjálfstæðisflokkurinn áherslu á að Akureyrarbær verði í fararbroddi á landsvísu og taki forystu sem leiðandi sveitarfélag í umhverfismálum.

 Mikil ásókn er á meðal innlendra og erlendra fyrirtækja eftir kolefnisjöfnun í rekstri sínum, m.a. vegna lagasetningar þar að lútandi. Sjálfstæðisflokkurinn lítur á það sem mikilvægt tækifæri að skapa fyrirtækjum vettvang til þess að kolefnisjafna starfsemi sína og nýta þá um leið tækifærið til frekari skógræktar innan marka sveitarfélagsins og ljúka við „Græna trefilinn“. 

 Verkefni af þessu tagi er þess utan til þess fallið að skapa sveitarfélaginu jákvæða ímynd sem leiðandi aðila í umhverfismálum sem aftur skilar sér í aukinni umfjöllun og betra samfélagi fyrir íbúa þess og gesti.

Hver er stefna ykkar þegar að kemur að göngugötunni í miðbænum?

Við þurfum áfram að hlúa að miðbænum okkar og tryggja að hann verði aðlaðandi fyrir íbúa og gesti bæjarins. Göngugatan skipar þar stóran sess enda væntanlega sú gata bæjarins sem flestir gesta hans heimsækja á hverju ári. Það skiptir okkur því öll máli að göngugatan njóti sín áfram og að miðbærinn verði hér eftir sem hingað til, iðandi af fjölbreyttu mannlífi sem gleður alla þá sem þangað leggja leið sína. 

Hver er stefna ykkar þegar kemur að sölu áfengis í Hlíðarfjalli?

Við setjum okkur ekki upp á móti henni en að sjálfsögðu þarf að hafa gott eftirlit og fylgja lögum og reglum.

Af hverju ættu Akureyringar að kjósa flokkinn?

Stefna Sjálfstæðisflokksins er metnaðarfull og framsýn og byggir á því grunnstefi að með ábyrgum rekstri skapist tækifæri til framfara. Sjálfstæðisflokkurinn er eini flokkurinn með það í stefnuskrá sinni að ráðist verði í markaðsátak til þess að laða nýja íbúa til bæjarins. Við stöndum á tímamótum og höfum allar forsendur til þess að fjölga íbúum bæjarins og þar með skjóta styrkari stoðum undir rekstur hans. Gjaldfrjáls leikskólapláss fyrir öll börn frá 12 mánaða aldri er annað mál sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur, einn flokka, sett í stefnuskrá sína og telur að hér sé um mikið hagsmunamál að ræða fyrir foreldra leikskólabarna sem koma til með að njóta þessa í formi aukinna ráðstöfunartekna.

Sambíó

UMMÆLI