Meistaramót Íslands fært til Akureyrar

Meistaramót Íslands fært til Akureyrar

Meistaramót Íslands í frjálsum íþróttum mun fara fram á Akureyri í ár. Mótið átti upphaflega að fara fram í Kópavogi en þegar að það kom í ljós að það myndi ekki ganga upp bauð Ungmennafélag Akureyrar fram sína reynslu og kunnáttu í mótahaldi.

Mótið mun fara fram á Þórsvelli dag­ana 25.-26. júlí en Þórsvöllur er nú eini löglegi átta brauta völlur landsins þar sem keppa má í öllum keppnisgreinum á einum og sama vellinum.

„Stjórn FRÍ vill færa UFA sérstakar þakkir fyrir sína framgöngu en einnig verður að þakka sérstaklega Akureyrarbæ sem hefur tryggt frjálsíþróttamönnum þessa mikilsverðu aðstöðu. Nú þegar ljóst er að frjálsíþróttavellir landsins eiga undir högg að sækja er ómetanlegt að sjá öflugt sveitarfélag eins og Akureyrarbæ standa með frjálsum og tryggja að afreksmenn sem almenningur geti hlaupið, stokkið og kastað við úrvals aðstæður í fallegu umhverfi Eyjafjarðar,“ segir í tilkynningu frá Frey Ólafssyni, formanni Frjálsíþróttasambands Íslands.

UMMÆLI