Menningarsumar Norðurlands

Veronika Rut skrifar:

Sumarið á Akureyri er ótrúlegur tími. Hingað flykkjast að ferðamenn í skemmtiferðaskipum sem verða stærri með hverju árinu sem líður, eða þeir sem eru að ferðast sjálfir um landið og ákveða að Akureyri sé heimsóknarinnar verð. Heimamaðurinn fer einnig að láta sjá sig meira á götum bæjarins og er sérlega líklegt að hitta hann í Kjarnaskógi á heitum dögum, í sundi á Þelamörk eða í Brynjuís.

Það iðar allt af mannlífi, sama hvernig viðrar. Á Akureyri er nefnilega nóg um að vera á sumrin. Stóru viðburðirnir eins og fjölskylduhátíðin Ein með Öllu og Akureyrarvakan halda í vinsældir sínar ár eftir ár og Listasumar fer ört stækkandi. Flóra listamannanna sem taka þátt í Listasumrinu í ár eru skemmtilegur hópur af myndlistarfólki, leikurum, tónlistarfólki, hönnuðum – og svona mætti lengi telja. Akureyri hefur stutt vel við bakið á menningarflórunni og hefur því myndast ákveðið mekka fyrir menningarstörf þar sem listafólk fær að blómstra og koma sér á framfæri.

Á Skagaströnd hefur einnig verið starfandi „residensía“ fyrir listafólk, síðan 2008. Þar mætast ólíkir menningarheimar með mismunandi list, allt frá myndlist til kvikmyndagerðar. Svipað fyrirkomulag má einnig finna á Blönduósi í Kvennaskólanum þar sem textílhönnuðir koma saman til þess að skapa og hanna.

Það sem gerir Norðurland hins vegar sérstaklega merkilegt á sumrin er að þrátt fyrir ösina, aragrúann af fólki og þétta dagskrá, er fólk í rólegheitum og að njóta. Hvort sem verið að að rölta um hellulagðar götur Hríseyjar, baða sig í jarðböðum í Mývatnssveit, drekka í sig stemmingu Siglufjarðar eða heimsækja miðaldadagana að Gásum þá eru heimamenn staðráðnir í því að gera sumarið að einstakri upplifun fyrir alla.

Veronika Rut, fjölmiðlafræðingur

Pistillinn birtist upphaflega í fréttablaðinu Norðurlandi, 31. maí.

UMMÆLI