Menntskælingar fá aðstoð lögfræðinga í deilunni við Tripical

Menntskælingar fá aðstoð lögfræðinga í deilunni við Tripical

Útskriftarnemar úr Menntaskólanum á Akureyri hafa leitað til aðstoðar lögfræðinga til þess að fá útskriftarferð til Ítalíu endurgreidda. Útskriftarnemarnir hafa ákveðið að fara ekki í ferðina.

Útskriftarnemarnir fengu að vita það í tölvupósti í gærkvöldi að þeir hefðu til klukkan 14:00 að ákveða hvort þeir ætluðu í ferðina. Ferðaskrifstofan Tripical bauð nemunum fjóra kosti í stað ferðarinnar til Ítalíu en endurgreiðsla á ferðinni, sem kostaði hvern nemenda 200 þúsund krónur, var ekki í boði.

Sjá einnig: Ætla sér ekki að endurgreiða útskriftarferð menntskælinga

Edda Krist­ín Bergþórs­dótt­ir, sem er í for­svari fyr­ir ferðanefnd nem­enda, seg­ir í samtali við mbl.is í kvöld að eng­inn sé á leið til Ítal­íu og að nem­end­ur hafi lítið heyrt frá ferðaskrifstofunni í dag. Einungis hafi verið sendur einn tölvupóstur þar sem þeim hafi verið boðið að færa ferðina frá 8. júní til 6. júní. Hún segir að það þurfi varla að taka það fram að nemendur hafi ekki áhuga á því að fara frekar til Ítalíu á morgun.

Hún segir á mbl.is að hún trúi ekki öðru en að endurgreiðslan skili sér á endanum og að lögfræðingar séu nú komnir í málið.

Sjá einnig: Telur nemendur eiga fullan rétt á 100% endurgreiðslu

Elísabet Agnarsdóttir, eigandi Tripical, hefur greint frá því að hún sé ósammála því að fyrirtækinu beri skylda til þess að endurgreiða ferðina. Í kvöldfréttum Stöðvar 2 sagði hún að á meðan ferðaskrifstofan geti efnt samninga sína þá geti þau ekki og séu ekki að fara að endurgreiða ferðina.

„Við erum ósammála því. Okkar lögmenn eru ósammála því. Á meðan við getum efnt ferðina,“ sagði Elísabet á Stöð 2. Hún segir að ef ferðaskrifstofan myndi endurgreiða öllum nemendum, þar á meðal nemendum úr öðrum skólum en MA, yrði ferðaskrifstofan gjaldþrota.

UMMÆLI