Menntskælingar komust til Evrópu þrátt fyrir vandræði WOW Air

Menntskælingar komust til Evrópu þrátt fyrir vandræði WOW Air

Nemendur í ferðamálafræði á þriðja og fjórða ári í Menntaskólanum á Akureyri lögðu í morgun af stað í ferðalag um Evrópu. Hópnum var skipt í átta hópa sem heimsækja jafnmargar borgir á meginlandinu. Ferðalög sem þessi eru hluti af áfanganum. Þetta kemur fram á vef Menntaskólans.

Það voru góð ráð dýr þegar fréttir bárust af því að allt flug með flugfélaginu WOW Air hafi verið stöðvað í nótt þar sem tveir hópanna áttu pantað flug með WOW.

Anna Eyfjörð Eiríksdóttir, kennari, stóð í ströngu í nótt við að koma krökkunum í flug með öðrum flugfélögum á síðustu stundu og náði því. Nemendur munu því á næstu dögum kynnast borgunum Valencia, Milano, Porto, Malaga, Pisa, Marseille, Verona og Nice.

Einnig var pantað nýtt flug heim fyrir einn hópinn og því ættu allir að komast heim á réttum tíma.

Um áfangann segir svo í áfangalýsingu námskrár:

Í áfanganum er sjónum beint út fyrir landsteinana og verður nemendum úthlutað evrópskum borgum sem þeir munu vinna greinargerðir um. Nemendur eiga þar að leitast við að kynna sér staðhætti og menningu í viðkomandi borgum svo vel að þeir geti leiðbeint samnemendum sínum í vinnuferð í borginni. Í þessu verkefni verður sjónum beint að nokkrum Evrópulöndum og unnið með þau tungumál sem nemendur hafa lært í skóla eða annars staðar og töluð eru í löndunum. Nemendur fara til nokkurra þeirra borga sem valdar verða og safna heimildum sem síðar verða notaðar til að gera kynningarmyndband um borgina og kynningarefni um borgir erlendis fyrir grunnskólanemendur.

Mynd: MA.is/Anna Eyfjörð Eiríksdóttir

Sambíó

UMMÆLI