beint flug til Færeyja

Menntun er lykill að jöfnuði og þroska 

Menntun er lykill að jöfnuði og þroska 

Inga Dís Sigurðardóttir skrifar

Ég er kennari og meistaranemi í náms- og starfsráðgjöf. Mér er því umhugað um skólakerfið okkar og börnin okkar. Ég tel að menntun eigi að vera réttur allra og sé lykill að jöfnuði og þroska. Ég myndi vilja sjá breytingar í menntakerfinu okkar frá grunnskóla upp að verk- og háskólanámi. 

 Ég vil að samræmt námsmat fylgi hverju barni frá fyrsta degi skólagöngu. Það væri ólíkt samræmduprófum fyrri tíma og væri línuleg kúrfa líkt og í ungbarnaeftirlitinu. Þá gætu foreldrar séð hvar þeirra barn stendur miðað við jafnaldra sína en megin áherslan verði á framfarir hjá nemendum, ekki stöðu viðkomandi á kúrfunni. Því við lærum öll mismunandi og á ólíkum hraða. Annað sem ég myndi telja mikilvægt fyrir íslenskt skólakerfi væri að fá sérfræðingana: félagsráðgjafa, sálfræðinga, þroska/iðjuþjálfa o.s.fv. meira inn í skólakerfið og inn í skólastofurnar. Slíkt gæti sparað fé og aukið vellíðan bæði nemenda og starfsfólks skóla til lengri tíma. 

 Við í Miðflokknum leggjum einnig áherslu á að íslenskukennsla barna og unglinga verði efld, því það skiptir máli að halda í arfleiðina sem þú skynjar best í gegnum móðurmálið þitt. 

 Ég vill fara sömu leið og Norðmenn. Fjármagna útgáfu og dreifingu á íslenskum barnabókum í auknum mæli þannig að börn hafi sterkar fyrirmyndir og sögur í menningarlegu samhengi. Slíkt myndi líka efla lestrarfærni á íslensku og um leið varðveita tungumálið okkar. 

 Þegar kemur að verknámi þá vil ég sjá að verknám væri eflt, ekki bara í Reykajvík heldur líka hjá okkur á landsbyggðinni og það er stefna Miðflokksins. Það þarf að huga að íslandi öllu í þessu samhengi því við þurfum iðnmenntað fólk hringinn í kringum landið. 

 Það kostar að vera í skóla. Nýlega kom fram í fjölmiðlum að 74% háskólanema telja sig nauðsynlega þurfa að vinna til þess að hafa efni á að stunda námið. Í þessu samhengi myndi ég telja að afsláttur ætti að vera af námslánum fyrir það fólk sem flytur út á land eftir nám. Það eflir byggðirnar okkar að fá fólkið aftur eftir nám en einnig aðra sem gætu viljað flytja. 

 Það þarf að vera jöfn tækifæri til náms fyrir alla íbúa á Íslandi, óháð kyni, uppruna, fjárhag og að það sé aðgangur að menntun í hæsta gæðaflokki með fjölbreytt námsumhverfi. Því þar sem er hvetjandi umhverfi verða framfarir. 

 Eflum Ísland með framúrskarandi menntun til framtíðar og þá eru tækifærin okkar! 

Höfundur situr í 4. sæti fyrir Miðflokkinn í Norðausturkjördæmi. 

VG

UMMÆLI

Sambíó