Met fjárhæð safnaðist á Dekurdögum í ár

Met fjárhæð safnaðist á Dekurdögum í ár

Í gær, föstudaginn 13. nóvember, afhentu þær Vilborg Jóhannsdóttir í Centro og Inga Vestmann í Pedromyndum, fulltrúa frá Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis styrk að upphæð 4,2 milljónum króna sem safnaðist á Dekurdögum á Akureyri í október.

Seldir voru handþrykktir klútar og bleikar slaufar í staura ásamt því að fyrirtæki greiddu fyrir þátttöku í viðburðinum.

„Kærar þakkir til allra þeirra fjölmörgu fyrirtækja og einstaklinga sem lögðu verkefninu lið en þetta er 12. árið sem við stöndum fyrir Dekurdögum á Akureyri en í ár safnaðist met fjárhæð. Sérstakar þakkir til allra sem hjálpuðu við undirbúninginn, Miðbæjarskvísunum sem skreyttu miðbæinn með bleikum slaufum, dugnaðarforkunum sem þrykktu og straujuðu klútana á mettíma og grafísku hönnuðunum í Vorhús sem hönnuðu fallega munstrið á klútana í ár. Einnig viljum við þakka alla aðstoðina við söluna á klútum og slaufum frá velunnurum okkar sem seldu á Dalvík, Ólafsfirði, Siglufirði, Svalbarðseyri og víðar. Sömuleiðis fær Lionsklúbburinn Sif í Eyjarfjarðarsveit miklar þakkir fyrir að virkja íbúa sveitarinnar til að styrkja verkefnið með því að selja þeim slaufur á póstkassana sína en klúbburinn sá um að binda slaufurnar upp.Hjörtun okkar eru stútfull af þakklæti,“ segir í tilkynningu frá Vilborgu og Ingu.

Á myndinni tekur Marta Jónsdóttir framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis við styrknum.

UMMÆLI