Gæludýr.is

Metþátttaka í Druslugöngunni á Akureyri

Metþátttaka í Druslugöngunni á Akureyri

Druslugangan var gengin á tveimur stöðum á Íslandi í gær, í sjöunda sinn í Reykjavík og í fimmta sinn á Akureyri. Líkt og Kaffið hefur fjallað um á síðustu dögum hefur gangan aldrei verið stærri í sniðum á Akureyri og það skilaði sér í metþátttöku í gær þegar hátt í 200 manns sóttu gönguna. Mikil sala var í drusluvarningnum að sögn skipuleggjenda, fjöldi skilta á lofti og gangan sjaldan verið eins glæsileg. Þá fór Lúðrasveit Akureyrar fyrir göngunni ásamt gjallarhornskallara, Þuríði Önnu Sigurðardóttur, og baráttukrafturinn þegar hersingin kom niður Gilið var hreint út sagt ólýsanlegur.

Gengið var sem leið lá niður niður á Ráðhústorg þar sem dagskrá tók við. Sálfræðingurinn Pétur Maack hóf dagskrána á hugvekju um stafrænt kynferðisofbeldi, sem jafnframt var þema göngunnar í ár. Þá flutti Inga Vala Jónsdóttir einnig magnaða ræðu um málefnið, sem stendur henni mjög nærri þar sem dóttir hennar, Tinna Ingólfsdóttir, varð fyrir slíku ofbeldi sem unglingur og átti stóran þátt í að opna umræðuna. Þá var fjöldi tónlistaratriða á dagskrá auk ljóðaflutnings og ljóðaslamms.

Skipuleggjendur segjast þakklátir fyrir að hann hafi haldist þurr en það hefði ekki verið verra fyrir blóðhitann ef sólin hefði aðeins látið sjá sig. Það hafi því verið kærkomið þegar risið var upp, dansað gegn ofbeldi við Beyoncé og baráttuandanum og kraftinum sem ríkti á Ráðhústorgi smitað útí andrúmsloftið.

Skipuleggjendur segja greinilegt að málefnið standi mörgum nærri og vilja þakka öllum sem mættu fyrir að taka afstöðu og hafa hátt og eins öllum þeim sem lögðu göngunni lið. Það sé ólýsanlega mikilvægt að þolendur ofbeldis finni að þeir standa aldrei einir og að það sé heill hellingur af druslum sem stendur með þeim og trúir þeim. Að lokum segja þær að druslur muni hafa hátt áfram og hætti aldrei að berjast fyrir samfélagi þar sem þolendur njóta þess réttætis sem þeir eiga skilið og skömmin sé öll hjá gerendum.

Sjá einnig:

Druslupepp á Græna Hattinum í kvöld – Frítt inn

Druslulist á Akureyri í dag

Sambíó

UMMÆLI