Mikið umfang á haustönn í símenntun við utanverðan Eyjafjörð

Mikið umfang á haustönn í símenntun við utanverðan Eyjafjörð

Það verður sannarlega í mörg horn að líta í símenntun við utanverðan Eyjafjörð á þessu hausti – bæði í Dalvíkurbyggð og Fjallabyggð. Sif Jóhannesdóttir verkefnastjóri, sem hefur umsjón með starfsemi SÍMEY við utanverðan Eyjafjörð, segir að þegar á allt sé litið muni óvenju margir í þessum tveimur sveitarfélögum sækja sér þekkingu af ýmsum toga á vegum SÍMEY á haustönn. Þessa dagana eru hin ýmsu námskeið og námsleiðir að hefjast. Sif er með fasta viðveru í námsverinu á Dalvík á miðvikudögum og fimmtudögum.

Íslenskunámskeið í Dalvíkurbyggð og Fjallabyggð
Á morgun, þriðjudag, hefjast námskeið í íslensku sem annað tungumál í Ólafsfirði og á Dalvík. SÍMEY er í góðu samstarfi við Menntaskólann á Tröllaskaga í Ólafsfirði og fær afnot af húsnæði skólans fyrir íslenskunámskeiðið. Um er að ræða fyrsta stigs námskeið í Ólafsfirði og hafa sumir þátttakenda tekið það áður en aðrir ekki. Á Dalvík verða tvö íslenskunámskeið, fyrsta og annars stigs. Samtals verða um þrjátíu manns í þessum þremur íslenskunámskeiðum.

Sterkari starfsmaður á Dalvík
Í þessari viku eru fyrstu námskeiðin í námsleiðinni Sterkari starfsmaður á Dalvík. Um er að ræða námsleið fyrir starfsmenn Dalvíkurbyggðar, þ.e. starfsfólk grunnskólans, leikskólans, íþróttamannvirkja og áhaldahúss. Að stórum hluta verður kennslan í húsnæði Dalvíkurskóla og þar hefjast einmitt í dag, mánudag, tölvunámskeið í tölvuveri skólans. Einnig verður kennt í námsveri SíMEY á jarðhæð Víkurrastar á Dalvík. Námsleiðin Sterkari starfsmaður er kennd á fjórum önnum og er hluti af endurmenntun starfsmanna Dalvíkurbyggðar. Nærri lætur að um 50 starfsmenn Dalvíkurbyggðar séu skráðir í Sterkari starfsmann núna á haustönn.

Fyrirtækjaskólar í Hornbrekku og Sæplasti
Í Hornbrekku í Ólafsfirði og Sæplasti á Dalvík eru að hefjast fyrirtækjaskólar, sem byggja á ítarlegri greiningarvinnu á báðum stöðum. Fræðsluáætlanirnar, sem eru afrakstur sameiginlegrar vinnu stýrihópanna á báðum stöðum og starfsfólks SÍMEY, liggja nú fyrir og verður fyrsti fyrirlesturinn á Hornbrekku, samkvæmt fyrirliggjandi fræðsluáætlun, í þessari viku. Fræðsluáætlun fyrir Sæplast verður kynnt starfsfólki þar á morgun, þriðjudag. Eins og með Sterkari starfsmann er um að ræða fjögurra anna fyrirtækjaskóla sem taka mið af viðhorfs-, þarfa- og áhugagreiningum starfsfólks.

Raunfærnimat í matartækni, fisktækni og þjónustugreinum
Á þessu ári hafa margir gengist undir raunfærnimat í hinum ýmsu starfsgreinum í Dalvíkurbyggð og Fjallabyggð og sú vinna heldur áfram núna á haustönn.  Um er að ræða raunfærnimat í matartækni, fisktækni og þjónustugreinum.

Stefnt að spænskunámskeiðum í október
Stefnan er sú að efna til spænskunámskeiða við utanverðan Eyjafjörð núna á haustönn, mögulega verður unnt að kenna þau bæði í Dalvíkurbyggð og Fjallabyggð. Það fer þó allt eftir skráningum, sem ekki er enn hafin, námskeiðin verða auglýst fljótlega og verður þá unnt að skrá sig á www.simey.is

UMMÆLI