Mikill fjöldi fólks á Akureyri síðustu helgi og verður næstu helgarMynd: Hlíðarfjall.is

Mikill fjöldi fólks á Akureyri síðustu helgi og verður næstu helgar

Þrátt fyrir mikinn fjölda gesta á Akureyri um liðna helgi gengu hlutirnir að sögn lögreglu stóráfallalaust. Gerðar voru athugsamedir við grímunotkun á tveimur veitingastöðum og farið var í þrjú hávaðaútköll.

Uppselt var í Hlíðarfjall síðustu helgi og hótel bæjarins voru fullbókuð. Erfitt reyndist að bóka borð á veitingastöðum bæjarins vegna þess fjölda sem var í bænum um helgina og helgina þar á undan. Við athuganir Kaffid.is hjá veitingastöðum og hótelum bæjarins virðist staðan vera óbreytt næstu tvær helgar. Von er á mörgum í bæinn sem ætla að nýta sér snjóinn og útivistina á Akureyri.

Gekk mun betur en helgina áður

Jón Valdimarsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Akureyri, segir í samtali við Rúv að mikill fjöldi fólks hafi lagt leið sína til Akureyrar eins og síðustu helgar. Þrátt fyrir það hafi hlutirnir gengið nokkuð vel, ólíkt helginni áður. Þá þurfti lögreglan meðal annars að loka sundlaug Akureyrar vegna of mikils fjölda. Þá gerði lögreglan  athugasemdir á nokkrum veitingastöðum. „Já, það var ansi mikil frekja og yfirgangur í mörgum þá en núna um helgina var þetta allt annað,“ segir Jón um nýliðna helgi. „Þetta gekk mikið betur og bara mjög vel. Við gerðum athugasemdir á tveimur veitingastöðum vegna grímunotkunar og annað en það var lagað fljótt og vel.“

UMMÆLI