Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur frestað ákvörðun um að loka fangelsinu á Akureyri til 15. september. Páley Borgþórsdóttir, nýr lögreglustjóri á Norðurlandi eystra segir þetta vera mjög góðar fréttir í viðtali í Föstudagsþættinum á N4.
Sjá einnig: Áslaug Arna vill fresta lokun fangelsisins á Akureyri
„Ráðherra kom hingað til þess að funda með bæjarstjórn, þingmönnum kjördæmisins og okkur hjá lögregluembættinu. Þar var farið vel yfir þessi mál og hún hefur verið að hlusta á okkur því það hefur verið ákveðið að fresta þessari ákvörðun til 15. september. Það eru mjög góðar fréttir,“ segir Páley en allt viðtalið birtist í Föstudagsþættinum á N4 í kvöld kl. 20:00.
Sjá einnig: „Ferlið í raun ekkert annað en óboðlegt“
Páley segir að þetta sé landsbyggðarmál af því að með lokun fangelsisins sé verið að taka störf af landsbyggðinni og flytja á suðvesturhornið. Hún segir að allir séu orðnir þreyttir á því hvað allt sogast þangað.
„Það sem að við sáum strax var hversu mikil áhrif þetta getur haft á löggæsluna. Við erum ekki það vel mönnuð að við getum misst tvo starfsmenn í að gæta skammtímafanga. Mikilvægur liður í þessu máli er samstarfssamingur sem var í gildi á milli lögreglustjóraembættisins og Fangelsismálastofnunnar um ákveðin samrekstur. Þannig að ef við þurfum að hugsa um alla sem eru í skammtímavistun þá þarf að auka töluvert við hjá okkur,“ segir Páley Borgþórsdóttir í Föstudagsþættinum sem fer í loftið klukkan 20.00 í kvöld á N4.
Mynd: Skjáskot/N4
UMMÆLI