Myndlistamaður gefur út verk sem eru innblásin af ímyndunaraflinu og sundiðkun

Myndlistamaður gefur út verk sem eru innblásin af ímyndunaraflinu og sundiðkun

Jónína Björg Helgadóttir, myndlistamaður á Akureyri, gefur út tvö glæný grafíkverk í takmörkuðu upplagi undir heitinu Öldugangur. Verkin eru bæði handprentuð af listamanninum á vinnustofu hennar og urðu til sem viðbrögð við sundleysi vorsins.

Sund, sem hefur lengi verið ein uppáhaldsiðja Íslendinga, hefur nú í tvígang verið bannað. Fyrir marga er sund fasti punkturinn í degi þeirra og partur af þeirra félagslífi. Fyrir aðra er sund hugleiðsla. Staður til að rækta líkama og sál. Vera einn, vera í vatni, fljóta og njóta. Á meðan sundlaugar voru lokaðar snemma í vor færðu margir sína líkams- og sálarrækt út í annað form af vatni. Snjóinn. Þó hann sé auðvitað bara vatn í öðru formi þá er það ekki alveg það sama að vera úti í snjó að og að vera í sundi. Þessa hluti hugleiðir Jónína í nýju verkunum, og líkt og í draumi blandast allar upplýsingarnar saman og lenda á blaðinu á ögn súrrealískan hátt. 

Jónína Björg um verkin: ,,Ég elska sund og þessa barnslegu og ofur-mannlegu gleðitilfinningu sem maður fær þegar maður stingur sér til sunds. En þegar sund er bannað tekur hugurinn við og finnur sínar lausnir. Þessi verk snúast um það. Þau urðu til því að öllum sýningum sem ég átti að vera með í ár hefur verið frestað og ég nennti ekki lengur að að láta það hindra mig í að sýna a.m.k. einu sinni á þessu ári. Ég ákvað að hafa þetta rafræna útgáfu svo að sem flestir hafi tækifæri til að taka þátt í henni. Grafíkverk eru auðveld að senda heim og ég hef þau á sérlega góðu verði í ár. Það er gaman að ímynda sér að sýningarnar verði þá bara heima hjá fólki.“

Jónína Björg hefur starfað sem myndlistamaður í fimm ár, haldið sex einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga hérlendis sem erlendis. Verk hennar eru fígúratív með súrrealísku ívafi og fjalla oft um konuna og hennar upplifanir. 

Öldugangur eru sem fyrr segir grafíkverk, dúkristur sem Jónína handprentar á vinnustofunni sinni í Hafnarstræti 90 á Akureyri. Hvort verk er í 15 eintökum og þau eru þess eðlis að það verður aldrei hægt að prenta fleiri. Þau verður hægt að fá annað hvort í ramma eða með kartoni og þá tilbúin fyrir fólk til að skella beint í eigin ramma af stærðinni 30×40 cm. Þá er lítið mál að fá verkin send. Verkin verða gefin út 26. nóvember 2020 í gegnum heimasíðu og samfélagsmiðla Jónínu Bjargar, www.joninabjorg.com og @joninabh á instagram.

UMMÆLI

Sambíó