Myndsegulbönd ryðja sér til rúms á Akureyri 1981

Myndsegulbönd ryðja sér til rúms á Akureyri 1981

Myndbandstæki og VHS-spólur voru Netflix níunda áratugarins. Ánægjan sem fylgdi því að geta horft á bíómynd eða annað skemmtiefni um hábjartan dag þegar ekkert var sjónvarpið er mörgum eftirminnileg. Í byrjun áratugarins voru myndbandstæki munaðarvara fárra. Þá tóku gjarnan margir sig saman um kaup á einu tæki sem gekk á milli húsa. Einnig var útleiga á videotækjum og spólum mikil á tímabili hjá myndbandaleigum áður en tækjaeign varð almenn.

Vorið 1981 fjallaði Dagur um videoæðið sem þá hafði gripið landann í greininni Myndsegulbönd ryðja sér til rúms á Akureyri. Í greininni gefa þrír verslunarmenn álit sitt á sölu myndbandstækja í bænum. Það eru þeir Rafn Sveinsson hjá Hljómdeild KEA, Róbert Friðriksson hjá Akurvík og Stefán Hallgrímsson í Hljómveri.

Myndsegulbönd ryðja sér til rúms á Akureyri

Myndsegulbönd ryðja sér æ meira til rúms hér á landi. Sem dæmi má nefna að í Reykjavík er algengt að fjölskyldur í fjölbýlishúsum sameinist um kaup á einu tæki og að einn íbúðareigandinn sjái um að setja tækið af stað þegar dagskrá íslenska sjónvarpsins lýkur. Deilt hefur verið um gæði þess efnis sem fólki stendur til boða, en Ijóst er að mikið af því er í lélegum gæðaflokki. Má t.d. nefna að klámmyndir eru mikið framleiddar fyrir myndsegulbandstæki og hefur slíkt efni sjaldan verið talið menningaraukandi.

Nú eru í gangi þrjú mismunandi kerfi og ekki hægt að nota spólur sem framleiddar eru fyrir eitt kerfanna í annað. Hér á landi er hægt að fá nýjar kvikmyndir, sem ekki eru komnar í kvikmyndahús, og sem íslensk kvikmyndahús hafa fengið einkaumboð fyrir. Að vonum þykir forráðamönnum þeirra hart ef hundruð manna hafa séð myndina. Fyrir nokkru var ein slík mynd, með Robert Redford, sýnd á skemmtistað á Akureyri.

Rafn Sveinsson, hjá Hljómdeild KEA, sagði að sala á myndsegulböndum væri öll að lifna við og hann sagði að a.m.k. eigendur eins fjölbýlishúss hefðu sameinast um kaup á myndsegulbandi. Innan skamms verður lokið uppsetningu á búnaði í öðru fjölbýlishúsi. Hljómdeild KEA hefur í hyggju að gerast umboðsaðili fyrir áteknar myndsegulbandsspólur. Rafn sagði að lögð yrði áhersla á „orginala“ enda eru myndgæði þeirra mun meiri en þeirra mynda sem teknar eru upp úr sjónvarpi.

Myndsegulbandstæki eru einnig til sölu í Akurvík og sagði Róbert Friðriksson, verslunarstjóri, að það færðist í vöxt að einstaklingar fjárfestu í myndsegulbandstækjum, þrátt fyrir hátt verð, sem er frá ellefu og allt upp í 20 þúsund krónur. Akurvík hefur ekki hafið reglulega útleigu á áteknum spólum, en ætlar að gera svipaða hluti og Hljómdeild KEA. Róbert sagði að Akurvík gerði eigendum fjölbýlishúsa tilboð í uppsetningu á myndsegulbandskerfum.

Stefán Hallgrímsson, í Hljómveri, sagði að hans fyrirtæki hefði ekki haft myndsegulbandstæki á lager, en að sjálfsögðu væri hverjum sem hafa vildi útvegað slíkt tæki. Hann benti á að þróun í gerð myndsegulbandstækja væri ákaflega ör og erfitt að segja nokkuð til um hvaða kerfi sigraði að lokum. „Við höfum viljað bíða þar til við gætum boðið eitthvað sem yrði ekki úrelt innan skamms.“ Og Stefán sagði að svo undarlega vildi til að fólk leitaði heldur til Reykjavíkur og keypti sín tæki þar – hins vegar kæmu hinir sömu með tækin á viðgerðarstofuna á Akureyri þegar þau biluðu.

Á sömu síðu, undir liðnum Smátt og stórt segir:

Í frétt hér á síðunni er sagt frá myndsegulböndum sem eflaust eiga eftir að komast í almenningseign innan tíðar. Ýmsar vafasamar myndir er hægt að kaupa í þessi tæki og auðvelt að komast yfir þær eins og eftirfarandi saga, sem er sönn, sýnir Ijóslega. Akureyringur kom inn í verslun í Reykjavík og bað um spólu í myndsegulband. Afgreiðslumaðurinn leit á viðskiptavininn og sagði: „Sex“. Bláeygður Akureyringurinn hélt að afgreiðslumaðurinn ætti við heyrnarvandamál að stríða og svaraði: „Nei, ég ætla bara að fá eina spólu.“

Heimildir:

Grenndargralið.

Myndsegulbönd ryðja sér til rúms á Akureyri. (1981, 21. maí). Dagur, bls. 8.

Sambíó

UMMÆLI