N4 og Græni hatturinn taka höndum saman í samkomubanni

N4 og Græni hatturinn taka höndum saman í samkomubanni

Tónleikastaðnum Græna hattinum á Akureyri hefur verið lokað vegna samkomubanns.

Til þess að bregðast við þessum fordæmalausu aðstæðum ákváðu sjónvarpsstöðin N4 og Græni hatturinn að leita til tónlistarfólks  með það fyrir augum að taka upp tónleika án áhorfenda og sjónvarpa þeim heim til landsmanna. Fyrstu tónleikunum verður sjónvarpað í kvöld.

Allir boðnir og búnir til að aðstoða

„Við höfum rætt möguleika á að taka upp tónleika á Græna í nokkurn tíma en aðstæðurnar í þjóðfélaginu kölluðu á að bregðast við með hraði. Allir sem leitað var til voru boðnir og búnir, bæði tónlistarfólk og kostendur. Stebbi Jak og Andri Ívars eru þeir fyrstu sem stíga á sviðið í þessu verkefni en þeir eru landsþekktir sem dúettinn föstudagslögin. Við tókum í vikunni upp klukkutíma tónleika með þessum frábæru listamönnum og afraksturinn verður sendur út í kvöld, föstudagskvöld,“ segir María Björk Ingvadóttir framkvæmdastjóri N4.

„Þetta verkefni sýnir svo vel að ýmislegt er hægt að gera, bara ef allir hjálpast að og ég er innilega þakklát öllum sem hjálpuðu við að greiða götu okkar.“

Stærstu tónleikar Græna

„Samkomubannið gerir auðvitað það að verkum að við þurftum að skella í lás. Í þessum aðstæðum þurfa allir að standa saman og bregðast við á jákvæðan hátt. Með þessum tónleikum geta allir landsmenn skellt sér á tónleika á Græna hattinum og það heima í stofu,“ segir Haukur Tryggvason á Græna hattinum.

„Það var mjög sérstakt að fylgjast með upptökunni, hérna er venjulega setið við hvert borð á tónleikum en núna verður staðan sú að landsmenn geta haft það notalegt heima og skellt sér á Græna og hlustað á Stebba Jak og Andra Ívars. Þetta verða klárlega fjölmennustu tónleikarnir sem haldnir hafa verið á Græna til þessa og það er bara frábært.“

 Tónleikarnir á N4 veða frumsýndir föstudagskvöldið 20. mars og hefst útsending klukkan 21:00

Sambíó

UMMÆLI