Nemendur innan HA óánægðir vegna rafrænnar brautskráningar

Nemendur innan HA óánægðir vegna rafrænnar brautskráningar

Snemma í síðasta mánuði var ákveðið að brautskráning úr Háskólanum á Akureyri myndi fara fram með rafrænum hætti í ár í ljósi Covid-19 faraldursins. Þrátt fyrir tilslakanir á samkomubanni segist skólinn enn ekki getað haldið hátíð fyrir nemendur. Nemendur innan skólans hafa lýst yfir óánægju með þá ákvörðun.

Sjá einnig: Brautskráning HA verður rafræn

Óánægja og vonbrigði

Karen Vilhjálmsdóttir, nemandi í útskriftarárgangi hjúkrunarfræðideildar, lýsir undrun sinni á því að framhaldsskólar á Akureyri og aðrir Háskólar á landinu geti fundið lausnir þar sem nemendur geti komið saman og fagnað en það sé ekki hægt í Háskólanum á Akureyri.

„Þegar þessar fréttir bárust varð mikil óánægja og vonbrigði meðal útskriftarnema þar sem um einn af stærstu dögunum í okkar lífi er að ræða. Eftir 3 til 4 ára háskólanám er útskriftin ákveðin uppskeruhátið fyrir okkur. Þar getum við samglaðst hvoru öðru og skapað dýrmætar minningar. En það virðist ekki vera í boði fyrir okkur þar sem við völdum að fara í nám í Háskólanum á Akureyri,“ segir Karen.

„Við útskriftarnemar heyrum fréttir af því að framhaldsskólar haldi athafnir þar sem aðeins þeir sem útskrifast eru viðstaddir. Í Háskólanum í Reykjavík verður haldin útskrift í Hörpu 20. júní þar sem verða mögulega fleiri en ein athöfn til þess að virða fjöldatakmarkanir. Háskóli Íslands hefur gefið út að útskrift þar fari fram í tveimur athöfnum þann 27. júní. Rektor HÍ nefnir í pósti sínum til útskriftanema að rýmkun stjórnvalda á möguleikum fólks til að koma saman geri þetta kleift. Hvers vegna getur HA ekki fundið lausn á þessu vandamál líkt og aðrir skólar hafa gert? Hvers vegna geta skólar í Reykjavík, þar sem Covid hefur verið í miklu meira mæli en hér á Akureyri, komið til móts við nemendur sína á meðan að HA segist ekki ætla að gera það?“

Karen segir að margir nemendur hafi sent póst á stjórn Háskólans og óskað eftir svörum. Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, sendi póst á nemendur þann 29. maí síðastliðinn þar sem sagði að það hafi verið rætt að skipta kandídötum niður í litla hópa og afhenda skírteini en að ákveðið hefði verið að það væri ekki vænleg lausn.

„Í þeim sama pósti koma einnig fram nýjar upplýsingar um að útskriftarnemar fái skírteini sín send með ábyrgðarpósti vikuna eftir útskrift. Já, eftir útskrift. Því er staðan þannig að Háskólinn á Akureyri ætlar að útskrifa okkur án athafnar eða skírteinis. Þá spyr maður sig hver sé eiginlega tilgangurinn með því að halda útskrift yfir höfuð,“ segir Karen.

„Ég tel þessa ákvörðun og úrræðaleysi skólans vera honum til háborinnar skammar.“

Óskar eftir því að nemendur sýni skilning

Eyjólfur Guðmundsson, rektor, bendir á að endanleg útfærsla annarra háskóla á landinu sé ekki ljós en brautskráningar þeirra verði með mismunandi hætti og byggi mest á stærð útskriftarárganganna og tímasetningu útskriftar.

Hann segir að það séu þrjár meginástæður fyrir því að Háskólinn á Akureyri treysti sér ekki til að vera með hefðbundna háskólahátíð að þessu sinni þann 13. júní næstkomandi.

Í fyrsta lagi stærð útskriftarárgangsins en Háskólinn á Akureyri útskrifar um 480 nemendur þann 13. júní. Þetta er stærsti útskriftarárgangur Háskólans frá upphafi.

„Til að unnt væri að gæta jafnfræðis á milli deilda og sviða þyrfti að margskipta viðburðinum og þar með var umfangið orðið of mikið til að unnt væri að ná utanum viðburðinn á tveimur dögum,“ segir Eyjólfur í svari við fyrirspurn Kaffið.is.

Í öðru lagi segir hann að ekki sé unnt að seinka brautskráningu þar sem gert er ráð fyrir annarri starfsemi og minni viðburðum við skólann í seinnihluta júní.

„Þá mun skólinn loka í júlí líkt og fyrri ár og því ýmis störf sem verður að sinna fyrir lokun skólans.  Seinkunn hefði óhjákvæmilega haft mikil áhrif á starfsfólk og aðra starfsemi skólans á tímabilinu,“ segir Eyjólfur.

Að lokum bendir hann á að þrátt fyrir að Ísland sé á réttri leið í baráttu sinni við Covid-19 þá verða næstu breytingar á reglum ekki fyrr en 21. júní og enn er möguleiki á að upp komi sú staða að takmörkunum verði ekki aflétt eða grípa verði til svæðisbundinna ráðstafanna. 

„Stjórn skólans mat ástandið því þannig að betra væri að gera ekki ráð fyrir viðburði í júnímánuði 2020 heldur bjóða nemendum að taka þátt í brautskráningarhátíð í febrúar 2021.  Þá hefur núna jafnframt verið bætt við sérstakri hátíð á afmælisdegi skólans, 5. september næstkomandi þar sem vonast verður til að hægt verði að kalla alla aðila saman og fagna þessum áfanga nemenda.“

„Á sama tíma og við skiljum vel að nemendum finnist sárt að geta ekki fagnað þessum merku tímamótum með samnemendum sínum og starfsfólki skólans, því þetta er jú uppskeruhátið fyrir okkur öll, þá óskum við jafnframt eftir því að nemendur sýni skilning því álagi sem verið hefur á starfsfólk skólans á yfirstandandi misseri og að betra sé að fara varlega nú þegar samfélagið fer að komast af stað að nýju,“ segir Eyjólfur að lokum.

www.danielstarrason.com
Sambíó

UMMÆLI

Sambíó