Niður í eyrar – út í hólma.  Minningabrot

Niður í eyrar – út í hólma. Minningabrot

Í dag, 16. nóvember, er dagur íslenskrar tungu. Af því tilefni endurbirtir Kaffið skemmtilegan pistil sem upphaflega birtist á grenndargral.is fyrir áratug eða svo. Pistlahöfundur er Valdimar Gunnarsson íslenskukennari við Menntaskólann á Akureyri til 40 ára.

Ég er fæddur og uppalinn frammi í firði – eins og við Eyfirðingar segjum, um það bil í miðri byggðinni, þar sem kallað er Grundarpláss. Austan árinnar, þar sem ég átti heima er ekki mikið flatlendi, það er allt Grundarmegin, Grundarnesið sjálft.  Að austanverðu var þó hólminn, u.þ.b. 6-7 hektara spilda þegar best lét, en Eyjafjarðaráin braut jafnt og þétt af honum.

            Dálítil kvísl úr Eyjafjarðaránni myndaði þennan hólma og eyrar talsvert miklar sunnan við hann. Kvíslin var stundum nokkur farartálmi, oftast mátti þó komast yfir hana með því að vaða og nógu smávaxinn kúasmali stalst stundum til að klifra á bak síðustu kúnni þegar kýrnar voru sóttar niður í eyrar. Í kvíslinni voru dálitlir hyljir á tveim stöðum. Á allra heitustu sumardögum var hægt að baða sig í hyljunum, einkum þeim norðari þar sem vatnið hafði hlýnað heldur meir á leið sinni eftir kvíslinni. Samt var betra að busla í Sílapollinum sem var sunnar á nesinu, þar var líka hægt að veiða hornsíli, kvótalaust. Rétt hjá var Síkið, oft hlýtt og hálffullt af fergini – en bæði við systkinin og kýrnar vissum að það var botnlaust og því fékk ferginið að vaxa í friði fyrir baðgestum og gráðugum nautgripum.

            Á þessum slóðum var mikið af fuglum og daglegt brauð að finna hreiður. Þarna verptu lóa og spói, stelkur og hrossagaukur, grænhöfði og rauðhöfðiog grátittlingur uppi í brekkunum. Á eyrunum var sandlóan sem kveinkaði sér svo mikið ef komið var nærri hreiðrinu. Í hólmanum og þó meir í Kríuhólmanum, sem var norðurendi stóra hólmans, var gæsavarp og þar var líka krían. Það var í senn spennandi og hættulegt að fara um kríuvarpið en gaman að sjá stóru gæsareggin.

            Hólminn var oftast nær sleginn eftir túnaslátt, þótt hann væri svo sem eitt af túnunum. Það var lengi gert að slá alla þessa hektara með gamla W4, Ferguson eða álíka vél og ekki var til að flýta fyrir að margar spóafjölskyldur voru gjarna að þvælast með unga sína í óslægjunni. Talsvert var á sig leggjandi til að forða þeim öllum frá ljánum en spóar eru erfiðir í smölun og rekstri, það veit ég af reynslu.

            Að sama skapi var tímafrekt að þurrka og taka saman, þarna var mikil spretta og völlurinn stór. En það var samt ævinlega gaman. Þegar komið var fram á síðsumarið voru oftast góðir þurrkar – eins og reyndar oftast í Grundarplássinu – og hvað er skemmtilegra en heyskapur á flötu túni í góðu veðri?

            Þótt ekki væri engjavegurinn langur, líklega innan við 2 km, var lengi siður að færa engjakaffi í hólmann, því fylgdi sérstakur hátíðarbragur. Það gat líka verið ljómandi tilbreyting að spenna hest frá rakstrarvél og fara á honum yfir kvíslina, suður allt nesið og upp gamla bæjarhólinn til að sækja kaffið og allt sem því fylgdi. Aðeins þurfti að varast eitt á þessu slóðum, það var áin sem oft var holbekkt því hún sló sér frá Grundarnesinu norðaustur og gróf sífellt úr hólmabakkanum. Reyndar minnist ég þess að hafa séð hálfslegnar torfur sem höfðu fallið í ána milli sláttar og hirðingar, þetta minnti á að engu var að treysta.

            Þessi á sýnist vera heldur meinleysisleg en oft varð hún býsna hrikaleg í vorleysingum. Í Grundarplássinu fellur hún frá austurlandinu vestur að Grundarnesinu og síðan frá því austur að Bringuhólma og Stórhamarshólma og loks norðan við hinn síðarnefnda alveg upp undir bæina á Stóra-Hamri áður en hún tekur aftur strikið til vesturs langa leið undir brekkurnar vestan ár. Þessir sífelldu krókar töfðu mikið fyrir jakaburði þegar áin var að hreinsa sig á vorin og stundum mynduðust gríðarmiklar jakastíflur í henni. Þá gat svo farið að hún flæddi upp á eyrarnar og hólmana með öllum þeim leirburði sem vorleysingum fylgja. Þá var stundum talsvert ryk í heyinu og jafnvel stóð mökkurinn upp af snúningsvélinni.

            En oftast var áin kyrrlát, átti að vísu nokkrar raddir, einkum á kvöldin, Suður af eyrunum var dálítið brot og þar mátti heyra niðinn – misjafnan eftir veðri og vindum. Þarna á brotinu var einatt silungur á ferðinni, allt upp í 6 punda sjóbirting. Slíkan fisk er ótrúlega gaman að draga á land og fátt smakkast betur. Ofan við brotið var hylur í ánni, afskaplega veiðilegur, en þar held ég hafi verið hvíldarheimili fiskanna – ef þeir voru þá nokkurn tíma þar. Áin er meiri en svo að menn geri sér að leik að vaða hana enda var sjaldan farið milli bæja austan og vestan ár. Þó átti Bringa kirkjusókn að Grund fyrr á árum en þangað var aldrei farið – nema þegar fermt var í eitt skipti.

            Þegar ég var lítill var ég frekar hræddur við ána, einkum bakkana, enda þótti mér nógu hræðilegt að detta í kvíslina þótt ekki væri meira vatnsfall. Samt var þetta svæði að mörgu leyti lokkandi, kílarnir og pollarnir í Nesinu, hólminn með öllum sínum fuglum. Eftir vöxt í ánni var líka hægt að fara í rannsóknarleiðangra og finna ýmislegt dót sem áin hafði borið upp á eyrarnar. Stundum hafði landslagið líka breyst í vatnavöxtunum, þannig var hver ferð ný á sinn hátt og landið ókunnugt að einhverju leyti en alltaf uppspretta ævintýra og gleði.

                                                                              Valdimar Gunnarsson frá Bringu

Heimildir:

Grenndargralið

Mynd: Héraðsskjalasafnið á Akureyri (2019). Afmæli 1. júlí 2019. Sótt af https://www.herak.is/is/myndir/myndir-2019/afmaeli-1-juli-2019

Sambíó

UMMÆLI