Nítjánþúsundasti íbúi AkureyrarFrá vinstri: Halla Björk Reynisdóttir, Birkir Rafn Júlíusson, Aþena Sif Birkisdóttir, Kristjana Árný Árnadóttir, Benedikt Árni Birkisson og Ásthildur Sturludóttir á skrifstofu bæjarstjóra í morgun. Mynd: Akureyri.is

Nítjánþúsundasti íbúi Akureyrar

Benedikt Árni Birkisson fæddist 20. júlí sl. á Akureyri og er samkvæmt íbúaskráningu 19.000. íbúi sveitarfélagsins. Benedikt litli kom á fund Ásthildar Sturludóttur bæjarstjóra og Höllu Bjarkar Reynisdóttur forseta bæjarstjórnar í morgun með foreldrum sínum og systur sinni Aþenu Sif sem er á öðru aldursári. Þetta kemur fram á vef Akureyrarbæjar.

Foreldrar Benedikts eru Kristjana Árny Árnadóttir og Birkir Rafn Júlíusson. Kristjana er fædd á Akureyri og hefur búið hér alla tíð en Birkir er frá Raufarhöfn. Þau segjast una hag sínum ákaflega vel á Akureyri og vilja hvergi annars staðar búa. Birkir Árni er að sögn foreldranna ákaflega vær og stækkar hratt og örugglega. Hann var 17,5 merkur og 55 sm þegar hann fæddist.

Bærinn færði fjölskyldunni góðar gjafir; Sögu Akureyrar í 5 bindum, árskort í Listasafnið á Akureyri og kort í Sundlaug Akureyrar, fallegan blómvönd og silfurskjöld sem á er letrað: „Benedikt Árni Birkisson nítjánþúsundasti íbúi Akureyrar 20. júlí 2019.“ Að auki fékk litla blómarósin Aþena Sif fallega bók að gjöf.

UMMÆLI