Þegar við vorum lítil þá var algengt að banka upp á hjá vin eða vinkonu og spyrja hvort viðkomandi vilji leika við mann. Oftar en ekki var svarið já og næstu klukkutímana var farið í ýmsa leiki. Á fullorðinsárum er aftur á móti aðeins flóknara að negla niður hitting með vinum sínum. „Hvað með fimmtudaginn eftir fimm vikur klukkan sex?“ Allir eru nefnilega á fullu í sínum verkefnum í sinni rútínu. Og fólkið sem tilheyrir ekki föstu rútínunni manns, það verður erfitt að finna tíma til að verja tíma með því. Af þessu leiðir að oft líða margar vikur milli samfunda.
Lífið er flóknara en hér áður fyrr þegar fólk sinnti vinnu, heimili, fjölskyldu og engu öðru. Í dag er fólk í vinnu en líka í námi. Það sinnir heimili og fjölskyldu en líka félagslífi. Svo er það líkamsræktin og helst líka geðrækt. Sjálfboðastarf, tómstundir og áhugamál. Síðan má ekki gleyma heilsunni þar sem við eigum helst að borða heimaræktað grænmeti, súrdeigsbrauð og lífræn egg. Sofa átta tíma á sólarhring. Hugleiða og slaka á inn á milli. Það er ekki skrítið að fólk sé að brenna út hægri vinstri. Það er svo mikill hraði í samfélaginu, svo margt að gera og sjá en við þolum einfaldlega ekki að vera á fleygiferð öllum stundum.
Það er hægt að líkja lífinu við ferðalag þar sem fararmátinn er alltaf að gera okkur kleift að fara hraðar yfir. Í gamla daga var fólk gangandi og augljóslega komst það styttri vegalengd. Það var ekki fært um að sjá allan heiminn en fólkið gat notið þess hluta sem það fékk alla vega að sjá. Af því að hraðinn var ekki mikill og þau höfðu tíma til að staldra við og njóta. Svo kom hjólið, bíllinn, lestin og flugvélin. Í dag ferðumst við á geysihraða í gegnum lífið og vissulega komumst við út um allt en náum við að njóta ferðalagsins? Náum við því þegar við erum á svona mikilli ferð? Náum við að sjá og taka eftir litlu hlutunum? Við ætlum okkur að gleypa heiminn þegar líkami okkar þolir aðeins í rauninni litla bita í einu. Minna er stundum meira. Og það er mikilvægt bæði fyrir eigin líkama en líka umhverfi okkar að hægja á okkur.
Hvernig skiptir maður þá niður um gír? Þú getur byrjað á því að fækka boltum sem þú ert með á lofti. Þú endar hvort eða er á því að missa þá alla á endanum ef þeir eru margir. Þá er betra að vera með færri bolta og ná að halda þeim gangandi. Með því að einfalda líf þitt og hafa færri verkefni ertu fær um að hafa unun að þeim. Það má líka alveg leiðast af og til, það er hollt fyrir okkur og eykur hæfni okkar til að skapa. Þess vegna er tilvalið að setja inn eyður í stundaskrána, ekki troðfylla hana af endalausum verkum. Og mundu að það er ekki magnið heldur gæðin. Hættu að þjóta og lærðu að njóta. Af því að lífið er ferðalag og það liggur ekki á að komast á áfangastaðinn.
*There is more to life than increasing its speed*
UMMÆLI