Norðlensk útvarpsstöð fer í loftið 1. desember

Útvarp Akureyri FM 98.7 er ný útvarpsstöð sem fer í loftið þann 1. desember næstkomandi. Það stóð alltaf til að hefja útsendingar á stöðinni fyrir nokkrum árum sem síðan varð ekkert úr en nú fer það að verða að veruleika í þessum síðasta mánuði ársins. Útvarp Akureyri er með stúdíó í Gránufélagsgötu 4, nánar til tekið í JMJ húsinu svokallaða.

Útvarpsmaðurinn Axel Axelsson mun sjá um útsendinguna fyrstu klukkutímana og mánudaginn 4. desember mun Axel hefja upp raust sína klukkan 07.00 í morgunútvarpinu sem hann kemur til með að stýra alla virka daga. Kunnuglegar raddir munu hljóma í Útvarpi Akureyrar eftir formlega opnun þess, eins og kemur fram í tilkynningu á heimasíðu útvarpsstöðvarinnar.

 ,,Mikill undirbúningur sendur yfir vegna opnunar.  Sendir stöðvarinnar er í Vaðlaheiði á besta stað og þegar í gangi, þannig að stöðin nái nú örugglega vel eyrum allra.  Þá stendur yfir mikil hugbúnaðarvinna en keyrt er á mjög öflugum hugbúnaði sem mun skila sér í góðu útvarpi sem flæðir áreynslulaust.
Séra Bolli Pétur Bollason mun verða viðstaddur opnun stöðvarinnar þann 1. desember klukkan 10.00 árdegis og blessa stöðina, starfsfólk hennar og framtíð.“

UMMÆLI