Norðurorka skilaði 347 milljóna hagnaði

Norðurorka skilaði 347 milljóna hagnaði

Rekstur Norðurorku var viðunandi á árinu 2019. Ársvelta samstæðunnar var um 4 milljarðar króna. Hagnaður ársins var 347 milljónir króna eftir skatta og eigið fé  12,3 milljarðar króna. Þetta kom fram á aðalfundi Norðurorku sem var haldinn á föstudaginn sl., 17. apríl.
Eigendur félagsins eru sex sveitar­­félög; Akureyrar­­bær, Eyjafjarðar­sveit, Grýtubakkahreppur, Hörgársveit, Svalbarðsstrandarhreppur og Þingeyjarsveit.

Á fundinum var ákveðið að greiða hluthöfum 15% arð af hlutafé eða 127 milljónir króna. Samstæðureikningur samanstendur af rekstri Norðurorku og dótturfélagsins Fallorku ehf. auk áhrifa frá hlutdeildarfélögunum Tengi hf. og Norak ehf. en rekstur þeirra gekk vel á árinu.

Reksturinn lakari en ráðgert var

Reksturinn var lakari en áætlanir gerðu ráð fyrir sem m.a. skýrist af auknum kostnaði vegna orkugjafa til að svara toppálagi hitaveitunnar, tjóni sem félagið varð fyrir vegna gallaðra sölumæla og auknum afskriftum. Í árslok 2018 var framkvæmt endurmat á veitukerfum og fasteignum móðurfélagsins sem leiddi til hækkunar á bókfærðu virði eigna þannig að afskriftir jukust um 293 milljónir króna sem ekki var að öllu fyrirséð við áætlanagerð.

,,Eigið fé samstæðunnar var eins og áður segir 12,3 milljarðar króna og eiginfjárhlutfall 62,2%. Veltufé frá rekstri var rúmlega 1,2 milljarður króna og handbært fé í árslok 405 milljónir króna. Tekin voru ný lán á árinu að upphæð 786 milljónir króna. Langtímaskuldir í árslok voru 6,6 milljarðar króna og hækkuðu milli ára.Verkefni liðinna ára hafa verið stór og verða áfram, einkum í hitaveitu. Toppnum er þó náð og gera áætlanir ráð fyrir að nú dragi úr fjárfestingaþörf næstu ár. Gert er ráð fyrir að fjárhagur félagsins nái jafnvægi árið 2023 og þá getu til að greiða niður lán vegna fjárfestinga liðinna ára,“ segir m.a. í samantekt ársfundarins. Tilkynninguna má lesa í heild sinni á heimasíðu Norðurorku.

UMMÆLI