Skúli Bragi Geirdal skrifar
Netöryggismánuðurinn er genginn í garð og þá er sérstaklega ánægjulegt að geta loksins tilkynnt að Netvís – Netöryggismiðstöð Íslands hefur hafið störf og tekur við hlutverki SAFT sem íslenskt Safer Internet Centre. En hvað er Netvís?
Netvís er miðstöð um félagslegt netöryggi og miðlalæsi
- Félagslegt netöryggi – Netöryggi á sér tvær hliðar, þ.e. bæði tæknilegt og félagslegt. Eins og tvær hliðar á sama peningi þá skipta þær jafn miklu máli. Þessu mætti líkja við það að aka bíl. Við þurfum að tryggja öryggisatriðin í bifreiðinni sjálfri eins t.d. hemlunarbúnað og loftpúða en á sama tíma þá þarf líka að tryggja að sá einstaklingur sem sest undir stýri geti tekið þátt í umferðinni á öruggan hátt. Vanbúinn ökumaður getur klesst öruggustu bifreið sem völ er á, þess vegna þarf þetta að haldast í hendur. Félagslegt netöryggi snýst um að vernda fólk sem notendur á netinu. Fræðsla og forvarnir eru því nauðsynlegur þáttur netöryggis.
- Miðlalæsi – er hæfnin til að leita sér að, skilja, greina, meta og skapa upplýsingar á öruggan og skilvirkan hátt í gegn um mismunandi miðla og upplýsingaveitur. Börn og ungmenni fæðast í dag inn í heim með allt öðru aðgengi að upplýsingum heldur en eldri kynslóðir. Þau nálgast því upplýsingar á allt annan hátt og nýjustu rannsóknir benda til þess að þau nálgist fréttir frekar á samfélagsmiðlum en hefðbundnum fréttamiðlum. Á sama tíma eru viðkvæmir hópar sem hafa ekki sömu tækifæri eða færni til þess að nýta sér nýja tækni og hættan er þá að þau verði útundan í innleiðingu á nýjum tæknilausnum. Hér erum við með nýjar áskoranir sem við sem samfélag þurfum að bregðast við. Miðlalæsi er hæfni sem þarf að ná til fólks á öllum aldri með markvissri fræðslu.
Hlutverk Netvís er að hvetja með markvissri fræðslu, vitundarátökum og ýmiskonar þjónustu til betri umgengni við tækni og miðla. Markmið okkar er að efla hugtakaskilning, vitund og valdeflingu almennings.
23.000 þátttakendur í 500 fræðsluerindum um allt land
Síðastliðin ár hefur myndast mikil eftirspurn eftir fræðsluerindum um félagslegt netöryggi og miðlalæsi fyrir börn, ungmenni, kennara, foreldra og eldri borgara. Fræðsla Netvís snýst um jákvæða og uppbyggilega netnotkun:
- Netumferðarskólinn – Fyrir 1.-7. bekkur – Efnistök: Lærðu umferðarreglurnar á netinu. Samskipti, öryggi, myndlæsi, gagnrýnin hugsun og upplýsingaleit.
- Algóritminn sem elur mig upp – Fyrir 8.-10. bekk + framhaldsskóla – Efnistök: Fjölmiðlalæsi, auglýsingalæsi, gervigreindarlæsi, myndlæsi o.fl. Hvernig virka algóritmar samfélagsmiðlanna og með hvaða hætti hefur tæknin áhrif á okkar daglega líf og líðan?
- Rauðu flöggin – Fyrir fullorðna – Efnistök: Netsvik og upplýsingaóreiða.
- Gervigreindarlæsi – Fyrir ungmenni og fullorðna – Efnistök: Læsi á myndir og upplýsingar sem gervigreindin býr til.
Starfsemin byggir á góðum grunni og víðtæku samstarfi
Heimili og skóli – landssamtök foreldra höfðu umsjón með SAFT verkefninu um árabil og með starfi sínu hafa þau skapað Netvís traustan grunn til að byggja ofan á.
Netvís gegnir hlutverki miðlægrar upplýsingamiðstöðvar um félagslegt netöryggi og miðlalæsi, og leiðir vinnu á sviði rannsókna, fræðslu, forvarna og vitundarvakningar. Miðstöðin leiðir einnig Tengslanet um upplýsinga- og miðlalæsi, öflugan samstarfsvettvang fagfólks og stofnana sem vinna að þessum málum með einum eða öðrum hætti.
Þegar að við lendum í vanda er mikilvægt að vita hvert við getum leitað og því er starfsemi Hotline og Helpline nauðsynlegur hluti af því að skapa notendum öruggt umhverfi á netinu. Netvís vinnur því í nánu samstarfi við:
- Neyðarlínuna 112, þar sem neyðarverðirtaka á móti erindum frá öllum þeim sem eru í neyð– í síma 112 eða netspjalli Neyðarlínunnar, allan sólarhringinn, allt árið um kring.
- Hjálparsíma Rauða krossins, sem er opinn fyrir öll sem þurfa á hlustun og samtali að halda. Vel þjálfað starfsfólk Hjálparsímans veitir börnum og öðrum sem hafa áhyggjur af velferð barna á netinu ókeypis ráðgjöf í trúnaði, bæði í síma 1717 og netspjalli Rauða krossins – einnig allan sólarhringinn, allt árið um kring.
Stýrihópur Netvís samanstendur af Hjálparsíma Rauða krossins 1717, Ábendingalínu Neyðarlínunnar, Ríkislögreglustjóra og Samfés. Jafnframt er starfandi ráðgjafaráð Netvís sem samanstendur af breiðum hópi hagsmunaaðila.
Netið er staður fyrir okkur öll til þess að tengjast öðrum, leita okkur upplýsinga og tjá okkur. Því er mikilvægt að við vinnum saman að því að tryggja öryggi allra. Við getum verið sammála um að vera ósammála í umræðum um erfið mál en á sama tíma sammála sem samfélag um þá vegferð að standa saman að verndun barna og ungmenna gegn ofbeldi og misnotkun á netinu. Skapað okkur jákvæðar og heilbrigðar venjur kringum notkun á snjalltækjum og stafrænum lausunum. Netvís er hér til að aðstoða okkur á jákvæðan og uppbyggilegan hátt.
Höfundur er sviðsstjóri Netvís – Netöryggismiðstöðvar Íslands



COMMENTS