Ný vinnsluhola Rarik fyrir hitaveitu Blönduóss og Skagastrandar var vígð í gær

Ný vinnsluhola Rarik fyrir hitaveitu Blönduóss og Skagastrandar var vígð í gær

Ný vinnsluhola, RR-38, var formlega vígð í gær, föstudaginn 13. júní, að Reykjum í Húnabyggð. Þar með lýkur umfangsmiklu verkefni sem hófst árið 2021 með það markmið að auka afkastagetu hitaveitunnar og tryggja nægjanlegt framboð á heitu vatni fyrir ört vaxandi eftirspurn á svæðinu.

Hitaveitan að Reykjum þjónar nú öllu þéttbýli á Blönduósi og Skagaströnd auk dreifbýlis í Húnabyggð. Með tilkomu nýju vinnsluholunnar er rekstraröryggi aukið og tryggt að veitan geti sinnt núverandi og framtíðareftirspurn á svæðinu.

Verkefnið hófst árið 2021 með borun á fyrstu tilraunaholu, RR-32, ásamt umfangsmikilli rannsóknarvinnu til að greina jarðhitakerfið á svæðinu betur. Árið 2023 var ráðist í framhaldsboranir og boraðar fimm 500 metra djúpar tilraunaholur, RR-33 til RR-37. Niðurstöður þeirra borana lögðu grunninn að ákvörðun um endanlega staðsetningu vinnsluholu.

Í kjölfarið hófst borun á RR-38 sem lauk veturinn 2024. Holan er alls 1.602 metra djúp og fóðruð niður á 430 metra dýpi. Við borun komu í ljós gjöfular sprungur á um 610 metra dýpi og minni sprungur á 1.020 metra dýpi. Hitastig holunnar mælist um 76°C, sem gerir hana vel hæfa til hitaveitunotkunar.

Á árinu 2024 var ráðist í hönnun og smíði djúpdælubúnaðar sem framleiddur var í Skotlandi og var tilbúinn í maí sama ár. Samhliða fór fram hönnun og lagning nýrra láréttra stofnlagna sem lauk síðla árs 2024. Í desember var dælunni komið fyrir í vinnsluholunni og lokafrágangur á rafmagni og lögnum stóð yfir fram á vor 2025. Holan var prufugangsett í mars 2025 og síðan hafa farið fram fínstillingar og prófanir.

Verkefnið er gott dæmi um markvissa uppbyggingu innviða sem miðar að því að auka sjálfbærni og þjónustugæði hitaveitunnar. Með því styrkir Rarik stöðu sína sem öflugur veituaðili á Norðurlandi og stuðlar að auknum lífsgæðum fyrir íbúa svæðisins.

UMMÆLI