Nýir eigendur taka við rekstri Polynorth á Akureyri

Nýir eigendur taka við rekstri Polynorth á Akureyri

Í dag, 1. apríl, taka nýir eigendur við öllum rekstri fyrirtækisins Polynorth ehf sem staðsett er að Óseyri 4 á Akureyri.

Fyrirtækið var stofnað á Akureyri árið 1987 og hefur aðalframleiðslan verið einangrunarplast til byggingarframkvæmda. Í apríl 2020 keypti fyrirtækið Polynorth ehf. reksturinn af Plastási ehf og þá tók Dýri Bjarnar Hreiðarsson við sem framkvæmdarstjóri fyrirtækisins.

Nýir eigendur, Hrafn og Hjörleifur, stefna nú á að fjölga vörulínum. „Það hafa meðal annars náðs samningar við austurískt fyrirtæki um kaup á nýrri vél sem steypir kubba fyrir húsbyggingar. Polynorth verður þá eina fyrirtækið á Íslandi sem framleiðir slíkar einingar,“ segja Hrafn og Hjörleifur.

Hrafn er vélfræðingur að mennt og hefur reynslu af plastframleiðslu bæði hér á landi og erlendis. Hjörleifur er viðskiptafræðingur og matreiðslumaður. Hann hefur verið í fyrirtækjarekstri undanfarin ár.

„Okkur er mikið í mun að halda áfram framleiðslu einangrunarplasts norðan heiða. Þannig gefst okkur tækifæri á að viðhalda persónulegum tengslum við viðskiptavini.“

UMMÆLI