Framkvæmdir eru hafnar við nýjan göngustíg meðfram Hörgárbraut, frá Hlíðarbraut og suður að Hraunholti. Stígurinn mun gera vegfarendum kleift að ferðast í gegnum bæinn, milli Krossanesborga og Akureyrarflugvallar, svo til beina leið á gangstéttum og stígum. Þetta kemur fram á vef Akureyrarbæjar í dag.
Stígurinn verður um 320 metra langur og þriggja metra breiður. Framkvæmdir hófust í síðustu viku og eru í höndum nesbræðra.
„Í þessum áfanga felst jarðvegsskipting, að setja ljósastaura og undirstöður fyrir girðingu. Vegna hugsanlegs jarðsigs var ákveðið að malbika og ljúka frágangi sumarið 2021,“ segir á vef bæjarins.
Þar segir enn fremur að á meðan vinnunni stendur gætu orðið smávægilegar truflanir á umferð, einkum þegar innkeyrsla að bensínstöð verður þveruð með upphækkun og þá verður einungis hægt að komast inn á planið frá Hlíðarbraut. Einnig má búast við truflunum á umferð þegar stærri bílar athafna sig á Hörgárbrautinni, en þessi röskun verður í lágmarki og varir í stuttan tíma í einu.
Um leið og þessari vinnu lýkur verður hafist handa við nýjan stofnstíg í Sjafnargötu og að mörkum Akureyrarbæjar og Hörgársveitar. Þetta verða tímamótaframkvæmdir, því með nýju leiðinni tengjast sveitarfélögin Hörgársveit og Eyjarfjarðarsveit með stígum í gegnum Akureyri, tæplega 9 kílómetra leið. Verklok á þessu ári eru áætluð 15. október en eins og áður sagði verður lokafrágangur næsta sumar.
Akureyrarbær leggur mikla áherslu á umhverfisvænar samgöngur og að byggja upp góða innviði fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Nánari umfjöllun um málið má nálgast á vef bæjarins með því að smella hér.
Mynd: Framkvæmdir við göngustíg meðfram Hörgárbraut. Þorgeir Baldursson/akureyri.is.
UMMÆLI