Prenthaus

Nýjar strætóleiðir kynntar á næstunni

Nýjar strætóleiðir kynntar á næstunni

Von er á tillögum að nýju leiðaneti Strætisvagna Akureyrar. Tillögurnar verða kynntar ítarlega á næstu vikum og samráðs leitað við íbúa með fjölbreyttum hætti. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Akureyrarbæ.

,,Að undanförnu hefur átt sér stað vinna við endurskoðun á leiðanetinu. Þótt metnaður hafi verið lagður í að gera almenningssamgöngur aðgengilegar hjá Akureyrarbæ, einkum með gjaldfrjálsum strætó, þá er vilji til að koma enn frekar til móts við óskir íbúa um betra og skilvirkara kerfi, auka notkun og bæta þannig nýtingu fjármuna,“ segir í tilkynningunni.

Sterkur vilji bæjarbúa að endurskoða leiðarkerfið

Verkefnið hófst í lok síðasta árs þegar leitað var eftir sjónarmiðum íbúa gagnvart þjónustu strætó, annars vegar með þjónustukönnun Gallup og hins vegar með sérstöku samráði við börn og ungmenni sem hægt er að lesa nánar um hér. 

Niðurstöður leiddu í ljós ríkan vilja bæjarbúa til að endurskoða leiðakerfið. Í kjölfarið var stýrihópur skipaður sem ber ábyrgð á verkefninu og var vinnuteymi, sem samanstendur af starfsfólki bæjarins, sérfræðingum Strætó bs., verkfræðistofunnar Eflu og fulltrúa notenda, falið að þróa nýjar tillögur.

Í þessari vinnu hefur einkum verið horft til þess að einfalda kerfið og auka tíðni með styttri ferðum og beinni leiðum. Þannig er markmiðið að þjónusta betur fleiri íbúa en áður og fjölga þannig farþegum. Á sama tíma er lögð áhersla á að strætó nýtist betur í tengslum við íþróttir og tómstundir barna.

,,Tillögur að nýju leiðaneti verða kynntar á næstunni og þá mun Akureyrarbær leita eftir ábendingum frá íbúum, til dæmis varðandi legu leiða og staðsetningu stoppistöðva. Íbúar eru hvattir til að fylgjast vel með og taka virkan þátt.“

UMMÆLI

Sambíó