Nýsköpunar- og þróunarverkefni í öldrunarþjónustu á Akureyri

Heilbrigðisráðherra ásamt fulltrúum frá Akureyri og sérfræðingum ráðuneytisins sem funduðu um nýsköpunarverkefnið.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur fallist á ósk Öldrunarheimila Akureyrar um gerð samnings til að hrinda í framkvæmd nýsköpunar- og þróunarverkefni í öldrunarþjónustu. Þetta kemur fram á vef Akureyrarbæjar.

Með breyttu þjónustuformi og betri nýtingu fjármuna á að stórauka möguleika aldraðra til að búa á eigin heimili þrátt fyrir mikla þörf fyrir stuðning og þjónustu.

Markmið verkefnisins er að umbreyta og aðlaga þjónustu sem nú er veitt með skammtímadvöl í svokölluðum hvíldarrýmum og bjóða þess í stað upp á fjölbreytta dagþjónustu með þjálfun o.fl. þar sem unnt er að mæta ólíkum þörfum notenda, bæði hvað varðar inntak þjónustunnar og opnunartíma.

Fjölbreytt og sveigjanleg þjónusta alla daga ársins

Áformað er að breyta notkun tíu hjúkrunarrýma sem notuð hafa verið til hvíldarinnlagna og byggja upp mun sveigjanlegra þjónustuform sem fleiri geta nýtt sér á hverjum tíma. Verkefnið mun ekki auka kostnað við rekstur hjúkrunarrýma heldur einungis breyta nýtingu þeirra fjármuna sem renna nú til rekstursins, um 110 til 120 milljónir króna á ári.

Áhersla verður lögð á dagþjónustu með opnunartíma fram á kvöld, alla daga vikunnar og einnig um hátíðir. Þá er horft til þess að hægt verði að mæta aðstæðum fólks sem kalla á sólarhringsdvöl, til dæmis vegna tímabundinna veikinda.

„Framsækið verkefni sem getur haft mikil áhrif á þróun öldrunarþjónustu á landsvísu“

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir kærkomið að sjá hversu vel sé búið að móta hugmyndafræðina að baki verkefninu og setja fram trúverðugt svar við ákalli um aukinn sveigjanleika og þjónustu sem tekur meira mið af einstaklingsbundnum þörfum fólks og ólíkum aðstæðum: „Þetta er framsækið verkefni sem getur haft mikil áhrif á þróun öldrunarþjónustu á landsvísu ef vel tekst til“ segir ráðherra.

Heilbrigðisráðherra mun fela Sjúkratryggingum Íslands að ganga til samninga um verkefnið. Vonir standa til að unnt verði að hrinda því í framkvæmd í byrjun næsta árs.

UMMÆLI

Sambíó