Viljar Dreki er akureyrskur tónlistarmaður sem hefur verið að spóka sig áfram í leiklist síðustu ár en þó alltaf verið að skrifa að hans eigin sögn. Nýverið hóf hann að vinna að sólóútgáfu eigin laga, ásamt því að vera söngvari í hljómsveit þar sem „mikið er í ofninum.“ Nýjasta afurð Viljars er lagið „Diary“, sem hann gaf út fyrir stuttu. Lagið er byggt á takti sem hann keypti fyrir um fjórum árum.
„Þetta er taktur sem ég keypti fyrir held ég 4 árum síðan, en fann aldrei réttu orðin, fyrr en mjög nýlega, sumir hlutir gerast mjög hægt og reyni ekki að flýta mér,“ segir Viljar.
Um efni lagsins segir hann: „Þetta snýst um umhyggju mína varðandi skáldskap. Það hressir mig alltaf við þegar ég næ að skrifa eitthvað sniðugt. Fólk er ekki alltaf til staðar en bókin mín fer ekki neitt.“
Árið 2017 tók Kaffið Viljar að tali en þá gekk hann undir viðurnefninu Viljar Níu Már, vegna þess að hann hafði misst einn fingur slysi, en af hverju nafnabreytingin?
„Ég komst að því að það sé hægt að heita Dreki og mér finnst það bara mjög flott og fyndið, svo að ég lét löglega bæta því við, svo að þetta er ekki aðeins sviðsnafn.“
Hægt er að hlusta á nýjasta lag Viljars, „Diary“, hér fyrir neðan en Kaffið óskar honum góðs gengis og þakkar honum fyrir spjallið.
UMMÆLI