Oddvitar í nærmynd – Benedikt Jóhannesson situr fyrir svörum

Kosningakaffið leitar svara hjá efstu sætum á listum stjórnmálaflokkanna í Norðausturkjördæmi. Viðtölin verða öll birt á næstu dögum en Kosningakaffið er tilraun til þess að auðvelda kjósendum að fræðast um flokkana, málefni þeirra, stefnur og fólkið á bakvið þá til þess að kjósendur geti tekið upplýsta ákvörðun í komandi kosningum. Hverju eru allir að lofa? Ef ég kýs þennan flokk, hvað græði ég á því sem Íslendingur og Norðlendingur?
Fyrsti viðmælandinn er Benedikt Jóhannesson, oddviti Viðreisnar í Norðausturkjördæmi. Benedikt komst inn á þing í síðustu kosningum og sinnti embætti Fjármálaráðherra. Við gefum Benedikt orðið.

Benedikt Jóhannesson.

Hvað finnst þér um að fara í kosningar svona stuttu eftir kosningar?
Þetta er erfið staða fyrir þjóðina sem þarf á stöðugleika að halda. Stjórnmálamenn verða að axla þá ábyrgð sem á herðar þeirra eru settar og kjósendur þurfa að hugsa sig vel um: Hver er líklegur til þess að bæta stöðu þjóðarinnar án þess að setja þann góða efnahagslega ávinning sem við höfum náð í uppnám? Enginn vill vera í sömu stöðu aftur eftir tólf mánuði og þess vegna hvet ég kjósendur til þess að kynna sér verk og stefnu Viðreisnar. Í sanngjörnum samanburði óttast ég ekki dóm kjósenda.
Hver verða ykkar helstu stefnumál fyrir komandi kosningar og af hverju ættu Norðlendingar að kjósa flokkinn?
Viðreisn berst fyrir gengisfestu og lægri vöxtum. Núna eru vextir svo háir að Íslendingar gætu tekið sér nærri sex vikna frí frá störfum, ef vextir væru sambærilegir við það sem gerist á öðrum Norðurlöndum. Stöðugt gengi og lægri vextir nýtast öllum Íslendingum, en ekki síst á landsfjórðungi sem byggir að stórum hluta á útflutningi.
Hefur þú náð að gera eitthvað af því sem þú lofar í síðustu kosningum? Ef ekki, þá af hverju? Og af hverju telur þú að þér takist það ef þú kemst á þing aftur í þessum kosningum?
Já vextir hafa lækkað, þó svo að enn sé langt í land. Skuldir ríkisins hafa minnkað um 10% og vaxtabyrðin á ríkinu hefur lækkað um 9 milljarða sem við getum nýtt í annað. Við höfum styrkt sálfræðiþjónustu í skólum og heilsugæslu, lækkað hlut sjúklinga í lækniskostnaði og tryggt fé í nýjan Landspítala. Jafnlaunavottun tryggir að launamunur kynjanna getur ekki viðgengist lengur innan fyrirtækja. Nú geta allir séð í hvað peningar ríkisins fara með því að fletta upp á vefsvæðinu opnirreikningar.is, en þar er hægt að sjá sundurliðuð útgjöld ráðuneytanna niður á einstaka reikninga. Ég hef afnumið fríðindi ráðuneyta og annarra ríkisaðila í áfengiskaupum. Við erum eini flokkurinn sem hefur lagt fram raunhæfar tillögur í landbúnaðarmálum þar sem gætt er að hagsmunum bæði neytenda og bænda.
Segjum sem svo að þinn flokkur fengi öll atkvæði þjóðarinnar og þið réðuð yfir öllu alþingi. Hvert yrði fyrsta mál á dagskrá?
Við myndum taka upp stöðugri mynt og lækka þannig vexti. Það yrði mesta kjarabót sem þjóðin gæti fengið á einu bretti.
Telur þú að það stefni í annað hrun? Ef já, er eitthvað sem þú gætir gert til að koma í veg fyrir það?
Nei, það held ég ekki, en við erum líka á fullu að koma í veg fyrir það. Við afnámum höftin eftir átta vikur í embætti, við höfum greitt niður skuldir, ég hef lagt fram mjög ábyrgt fjárlagafrumvarp með afgangi þannig að við getum haldið áfram að greiða niður skuldir. Við vinnum líka að tillögum til þess að draga enn úr áhættu í bankakerfinu.
Hver er lærdómsríkasta vinna sem þú hefur haft og þú telur að hafi undirbúið þig mest fyrir þingstarfið (má ekki nefna pólitíkina)?
Ætli ég hafi ekki lært mest á því að vera í sveit á sínum tíma í Kelduhverfinu. Þar komst maður í nána snertingu við náttúruna og dýrin, auk þess sem ég lærði mikið af því að hlusta á bændurna í sveitinni.

 

UMMÆLI

Sambíó