beint flug til Færeyja

Oddvitaspjall – Þorsteinn Bergsson (J)

Oddvitaspjall – Þorsteinn Bergsson (J)

Líkt og alþjóð er kunnugt styttist nú óðum í Alþingiskosningar, en þær fara fram laugardaginn 30. Nóvember næstkomandi. Í ljósi þessa hefur Kaffið sent út stuttan spurningalista á oddvita allra framboða í Norðausturkjördæmi. Markmiðið er að gefa þessum frambjóðendum tækifæri til þess að kynna sig sérstaklega fyrir lesendum Kaffisins, sem flestir eru búsettir á Akureyri og Norðurlandi almennt.

Þorsteinn Bergsson, þýðandi og rithöfundur, er efstur á framboðslista Sósíalistaflokks Íslands í Norðausturkjördæmi fyrir komandi kosningar. Svör hans við oddvitaspurningum Kaffisins er að finna hér að neðan.

Hver eru helstu stefnumál þíns flokks fyrir komandi kosningar?

Hér eru nokkur þau sem efst eru á blaði í stefnu flokksins á landsvísu:

Mannsæmandi kjör fyrir alla landsmenn, hvort sem þeir eru launamenn, atvinnulausir, lífeyrisþegar, námsmenn eða heimavinnandi.

Aðgengi að öruggu og ódýru húsnæði.

Aðgengi að gjaldfrjálsu heilbrigðiskerfi, að gjaldfrjálsri menntun á öllum skólastigum og að gjaldfrjálsu velferðarkerfi sem mætir ólíkum þörfum fólksins í landinu.

Enduruppbygging skattheimtunnar með það fyrir augum að auðstéttin greiði eðlilegan skerf til samneyslunnar en álögum sé létt af öðrum.

Sjálfum eru mér landbúnaðarmál, fjármálakerfið og samgöngumál mjög hugleikin.

Segjum sem svo að flokkurinn þinn fengi meirihluta atkvæða á landsvísu og gæti einn myndað ríkisstjórn. Hvert yrði fyrsta mál á dagskrá?

Að gera fjármálakerfið að raunverulegu stoðkerfi fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu. Fyrsta skrefið í því væri að gera Landsbankann að samfélagsbanka sem innheimti ekki þjónustugjöld og byði öllum landsmönnum, óháð fjárhag og búsetu upp á skikkanleg lánakjör.

Finnst þér nægilega vel stutt við íbúa landsbyggðarinnar eins og staðan er í dag? Ef ekki, hvað viljið þú og þinn flokkur gera betur ef þið komist í ríkisstjórn?

Nei, og við verðum að byrja á því að hjóla í alla þá þætti sem gera framfærslu dýrari úti á landi og eftir því dýrari sem byggðarlögin eru minni. Sem dæmi um það viljum við jafna orkukostnað (hér þarf sérstaklega að huga að dreifingarkostnaði raforku) og finna leiðir til að jafna matvælaverð og annað vöruverð með því að minnka áhrif flutningskostnaðar sem er orðinn óhóflegur. Höfnum öllum hugmyndum um veggjöld í vegakerfinu og leggjum þau niður þar sem þau eru þegar í gildi. Athuga aðferðir til að styðja við landsbyggðirnar í gegnum skattakerfið.

Hvaða málefni finnst þér skipta sérstöku máli fyrir Norðausturkjördæmi?

Að bæta samgöngur. Hætta að fjársvelta Vegagerðina þannig að hún geti skammlaust séð um eðlilegt viðhald á vegunum og smærri og meðalstórar framkvæmdir eins og brúargerð. Sérstaka áherslu þarf að leggja á þá landshluta sem orðið hafa alveg eftir á síðustu 20 árum.

Af hverju ættu Norðlendingar að kjósa þinn flokk?

Af sömu ástæðu og Austfirðingar (sem vel að merkja eru líka í kjördæminu), sem sé þeirri að Sósíalistaflokkurinn ætlar að færa valdið frá fjármagnseigendum aftur til almennings og efla til vegs á ný það velferðarkerfi sem frjálshyggjan hefur stórskaðað. Það mun koma öllum landsmönnum til góða en landsbyggðunum þó mest því að sú innleiðing ójafnaðar sem frjálshyggjan stóð fyrir hefur bitnað harðast á þeim.

Ein létt að lokum, hvernig tekurðu kaffið þitt?

Uppáhellt, ekkert bauna- eða hylkjakaffi úr vélum, og með kaldri mjólk út í. Rjóma ef ég er í hátíðaskapi eins og ég vonast til að verða á sunnudaginn.

VG

UMMÆLI

Sambíó