Oddviti Pírata á Akureyri úr sviðsljósi stjórnmála á skólabekk

Oddviti Pírata á Akureyri úr sviðsljósi stjórnmála á skólabekk

Einar Brynjólfsson oddviti Pírata í Norðausturkjördæmi ætlar ekki að gefa kost á sér í komandi sveitarstjórnarkosningum. Frá þessu greinir Einar í færslu á facebook síðu sinni.

„Í vor verður gengið til kosninga til sveitarstjórna, eins og alþjóð veit. Ég mun ekki gefa kost á mér í höfuðborg hins bjarta norðurs, aldrei þessu vant, en vil hvetja öflugt fólk sem brennur fyrir íbúalýðræði og vönduðum vinnubrögðum til að láta að sér kveða hjá okkur Pírötum. Tökum þátt í lýðræðinu,“ segir Einar.

Einar var kjörinn á þing fyrir Pírata árið 2016. Hann leiddi lista Pírata í Norðausturkjördæmi í alþingiskosningunum í fyrra en hafði ekki erindi sem erfiði. Nú hyggst hann snúa sér að öðrum verkefnum og ætlar að klára M.A. nám í lögfræði við Háskólann á Akureyri.

Einar er þó ekki alveg hættur afskiptum af stjórnmálum en hann situr í stjórn Pírata í Norðausturkjördæmi og mun verða arftökum sínum innan handar. Píratar eru um þessar mundir að auglýsa eftir frambjóðendum í prófkjöri Pírata á Akureyri til sveitarstjórnarkosninganna í vor, en næsta föstudag  4. febrúar verða Píratar með opið hús í Ketilhúsinu á Akureyri þar sem þau Einar, Halldóra Mogensen og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmenn Pírata ásamt Sigurbjörgu Erlu Egilsdóttur bæjarfulltrúa Pírata í Kópavogi munu taka á móti áhugasömum og jafnvel tilvonandi bæjarstjórnarfulltrúum Pírata.

Viðburðurinn er opinn öllum og hefst kl.19 og stendur frameftir kvöldi. Veitingar eru í boði Pírata.

Sambíó

UMMÆLI