Ógnaði tveimur mönnum með skammbyssu

Lögreglu hefur ekki enn verið unnt að yfirheyra manninn sem var handtekinn á Svalbarðseyri í nótt. Kaffið greindi frá því fyrr í dag að maður í annaregu ástandi hefði verið handtekinn á Svalbarðseyri eftir að hann sást handleika vopn á almannafæri.

Sjá einnig: Vopnaður maður á Svalbarðseyri handtekinn

Í nýrri tilkynningu frá lögreglunni á Norðurlandi eystra segir að maðurinn hafi ógnað að minnsta kosti tveimur öðrum mönnum með pinnabyssu. Pinnabyssa er skammbyssa sem notuð er til þess að aflífa stórgripi.

Hann er grunaður um að hafa tekið byssuna ófrjálsri hendi úr húsi á Svalbarðseyri. Maðurinn sem er á fertugsaldri er einnig grunaður um önnur þjófnaðarbrot og eru þau mál til rannsóknar hjá lögreglu.

Ekki hefur verið ákveðið hvort farið verði fram á gæsluvarðhald yfir manninum en það skýrist í kvöld.

UMMÆLI