Opið lengur í Sundlaug Akureyrar og skjár fyrir HM

Sundlaugargestir fylgjast með HM. Mynd: akureyri.is

Afgreiðslutími Sundlaugarinnar á Akureyri hefur nú verið lengdur þannig að í sumar verður opið til kl. 21 á laugardagskvöldum og 19.30 á sunnudagskvöldum. Frá þessu er greint á vef Akureyrarbæjar.

Elín H. Gísladóttir forstöðumaður sundlaugarinnar segir í viðtali við vef Akureyrarbæjar að eftir að nýju vatnsrennibrautirnar hafi verið teknar í notkun hafi aðsókn aukist töluvert og stundum verið fullmargt í lauginni í einu. Það hafi sérstaklega verið á laugardögum og því hafi verið ákveðið að framlengja opnunartímann þá.

„Gestir eru almennt mjög ánægðir með nýju rennibrautirnar og heimsóknum hefur fjölgað. Við höfum til dæmis heyrt fjölmargar sögur um að Akureyri hafi verið valin sem áfangastaður til að leyfa krökkunum að prófa nýju rennibrautirnar. Nýi heiti potturinn hefur slegið algjörlega í gegn og fólk dásamar vatnsnuddið mikið. Ekki má heldur gleyma kalda pottinum sem tekinn var í notkun síðasta haust. Hann nýtur mikilla vinsælda og er mikið notaður,“ segir Elín í viðtali á heimasíðu Akureyarbæjar.

Miklar framkvæmdir hafa verið við sundlaugina undanfarin ár en áætlað er að framkvæmdum við nýja sólbaðsaðstöðu og í garðinum ljúki á næstu dögum. Ýmsar framkvæmdir eru enn á döfinni. Á heimasíðu Akureyrarbæjar segir að enn eigi eftir að gera geymslu fyrir kennslu og æfingagögn ásamt fleiru sem fylgir rekstrinum. Skipta á um lásakerfi í búningsskápum og verða lyklar aflagðir en þess í stað tekin upp pinnúmerakerfi.

„Stefnt er að því að skipta um dúk í gömlu lauginni. Dúkurinn sem nú er í lauginni er orðinn gamall og stökkur og laugin farin að leka tölvert. Því verður ekki hjá þessari framkvæmd komist þótt það verði ekki auðvelt að loka miðju sundlaugasvæðinu en óneitanlega mun það hafa töluverð áhrif á reksturinn á meðan á því stendur. Áætlað er að byrjað verði á verkinu upp úr miðjum ágúst,“ segir Elín H. Gísladóttir forstöðumaður Sundlaugarinnar á Akureyri.

Þess má að lokum geta að komið hefur verið upp 75 tommu skjá við nýju heitu pottana og þar verða flestir fótboltaleikirnir á HM sýndir þegar veður og aðstæður leyfa.

 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó