Opinber áskorun til Kennarafélags Íslands frá Akureyri – Við erum klárMynd/visitakureyri.is

Opinber áskorun til Kennarafélags Íslands frá Akureyri – Við erum klár

Trúnaðarmenn 6.deildar á Norðurlandi sendir frá sér opinbera áskorun til Kennarafélags Íslands.

Við stöndum þétt við bak ykkar og þökkum kærlega fyrir alla þá vinnu sem þið hafið lagt í samningarviðræður. 

Fyrir hönd trúnaðarmanna 6.deildar

Það var fjölmennt á samstöðufundi 6. deildar Félags Leikskólakennara í Hamri á Þórssvæðinu á Akureyri. Þó að rauða veðurviðvörunin frá því fyrr um daginn hafi runnið sitt skeið er skólastarf í landinu ennþá á hættustigi.

Við erum saman komin, leikskólakennarar frá öllum skólum svæðisins, við höfum ólíkan bakgrunn en í dag erum við eitt. Við erum eitt samfélag, einn vinnustaður, eitt hjarta. Við erum uppfull af sorg og reiði og það virðist ekkert ætla að létta til. Við vitum það sem flestum grunar, að ef enginn stýrir kennarastéttinni af þessari stefnu deyr okkar stétt út. Kennarar á yngsta skólastiginu heyra sögunni til, síðasti Geirfuglinn dáinn. Ófaglærðir starfsmenn, nú eða ófaglærðir leikskólakennarar eins og fjölmiðlar kallar unga fólkið sem við fáum inn á gólf til okkar í nokkra mánuði í senn, eru með tærnar þar sem kennarar hafa hælana hvað varðar launin. Ábyrgðin á starfinu, menntun og velferð barna er alltaf okkar en launataxtinn ber ekki ummerki þess. Við erum kennarar og förum fram á að samningarnir sem nú þegar er búið að skrifa undir, séu virtir og við fáum þau laun sem við eigum skilið. Ekki fáum við lífeyriséttindi okkar tilbaka sem tapast hafa á þeim 9 árum síðan við stóðum við okkar enda samningsins.

Það verður að standa við gefin loforð ef við ætlum að vera samkeppnishæf þjóð þegar kemur að menntun barna. Við heyrum skoðanir almennings og vitum alveg að það er verið að mismuna börnum, þó við séum ekki sammála með hverskonar mismun á sér stað. Þið talið um að það sé mismunað eftir leikskólum, sum börn fá að mæta í sinn leikskóla en ekki önnur, það eru skiljanlegar vangaveltur en ekki mismunun. Raunveruleg mismunun er sú að sum börn fá aldrei menntun frá kennara, það er mismunun. Svo ef þið haldið að við séum ekki að berjast fyrir jöfnum rétti barna þá hafið þið rangt fyrir ykkur, við erum einmitt að gera það. Við viljum að öll börn fái menntun frá KENNARA en ekki frá einstaklingi sem hefur enga reynslu, menntun eða þekkingu til að mæta ólíkum þörfum barna. Ungir einstaklingar sem eru að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði koma ekki í staðinn fyrir leikskólakennara, leikskólakennara sem eru hoknir af reynslu, með margra ára háskólanám í farteskinu. Leikskólakennarar hafa þekkingu og reynslu til að meta þroska og velferð ungra barna, þeir stíga inní þar sem þarf og veita foreldrum og forráðamönnum þá leiðsögn sem þurfa þykir. Ábyrgðin er alltaf kennarans þegar kemur að beiðnum til stoðþjónustu, svo sem sérkennslu, talkennslu, iðju- og þroskaþjálfun, barnaverndar og fleira. Ábyrgðin er mikil og vitum við það mæta vel, enda með framtíð þjóðarinnar í höndum okkar. Hvað verður um yngsta skólastigið þegar síðasti Geirfuglinn er dáinn, þegar leikskólakennarastéttin er stétt sem enginn starfar við lengur? Hvað verður um öll þau börn sem þurfa virkilega á okkur að halda?

En allt þetta vita land og þjóð. Við erum ekki með neinar nýjar ábendingar eða nýjar staðhæfingar. En það sem er öðruvísi núna en áður er að stéttin okkar hefur fengið nóg. Við erum klár í alvöru slag og við erum vön að standa af okkur storminn. Leikskólakennarar á Akureyri eru tilbúnir í fyrstu bylgju af nýrri útgáfu verkfalla. Við skorum á Kennarafélag Íslands að óska eftir því að við förum öll saman í verkfall, því að eldmóður okkar er áþreifanlegur, kraftur okkar er sýnilegur og það er ekkert sem stoppar okkur. Hingað og ekki lengra. Standið við gefin loforð.

Áfram kennarar! Áfram við!

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó