Óttast að BSO loki ef nýtt frumvarp um leigubíla verði að lögumBifreiðastöð Oddeyrar - BSO.

Óttast að BSO loki ef nýtt frumvarp um leigubíla verði að lögum

Bílstjórar leigubíla á Akureyri hafa miklar áhyggjur af nýju frumvarpi til nýrra laga um leigubifreiðar. Formaður Bílstjórafélags Akureyrar óttast að leigubílastöðin BSO leggist af ef frumvarpið verður samþykkt en í frumvarpinu er lagt til að takmörkunarsvæði og fjöldatakmarkanir atvinnuleyfa verði afnumin og akstur gefinn frjáls, þ.e. að allir geti sótt sér leyfi og keyrt leigubíl þegar þeir vilja. Þetta kemur fram í frétt Rúv um málið.

Í núgildandi lögum verður leigubílaakstur að vera aðalatvinna bílstjórans á takmörkunarsvæðum en takmörkunarsvæði eru þrjú; Í Reykjavík, á Akureyri og í sveitarfélaginu Árborg. Á Akureyri eru nú 22 bílstjórar með leyfi en Gylfi Ásmundsson, formaður Bílstjórafélags Akureyrar, telur að verði frumvarpið að lögum þýði það endalok leigubílastöðvarinnar BSO. Ekki sé grundvöllur fyrir 22 störfum lengur þegar hver sem er getur fengið leyfi og keyrt í aukavinnu á háannatíma því nú þegar er ekki nægilega mikið að gera hjá þeim bílstjórum sem starfa á BSO. Hann nefnir að nauðsynlegt sé að hafa kvóta í þessum markaði eins og öðrum ef fólk eigi að geta starfað sem leigubílstjóri í fullu starfi og vonast til að þingmenn kynni sér stöðu mála áður en frumvarpið verður samþykkt.

Sambíó

UMMÆLI