Óvissa með framtíð miðvarða KA

 

                                                              

Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri KA, segir það ekki ljóst á þessum tímapunkti hvort varnarmennirnir Davíð Rúnar Bjarnason og Vedran Turkalj muni leika með liðinu í Pepsi-deildinni næsta sumar. Báðir eru þeir að renna út á samning.

Davíð Rúnar, sem hefur leikið með KA allan sinn feril, missti af stórum hluta nýliðins tímabils að sökum meiðsla. Hann skoraði 1 mark í 9 leikjum með liðinu í sumar.

„Hann er í pásu. Hann ætlar ekkert að vera í fótbolta fyrr en í janúar í fyrsta lagi. Það er brjálað að gera hjá honum í vinnunni sem verkfræðingur,“ sagði Sævar í samtali við Magnús Má Einarsson á Fotbolti.net fyrr í dag.

Króatinn Vedran Turkalj, sem gekk til liðs við KA um mitt sumar frá Slóvenska liðinu NK Aluminij, mun þá vera að skoða aðra möguleika erlendis.

„Hann treystir sér ekki til að svara neinu fyrr en eftir áramót og hann er á bið þangað til. Hann er kostur sem við erum tilbúnir að skoða. Hann ætlar að bíða eftir að glugginn loki í Austur-Evrópu í lok janúar áður en hann ákveður sig,“ sagði Sævar.

Þá segir Sævar að stefnt sé að því að halda öllum öðrum leikmönnum liðsins fyrir komandi tímabil í Pepsi-deildinni. KA menn enduðu í 7. sæti með 29 stig í Pepsi-deildinni síðasta sumar.

Viðtalið við Sævar á Fotbolti.net má lesa hér í heild sinni.

UMMÆLI