Plastpokalaust samfélag

Akureyringar hafa staðið sig mjög vel í umhverfismálum – svo vel að eftir hefur verið tekið. Við höfum staðið fyrir umbótum í þessum málaflokki á kjörtímabilinu og þurfum að halda því starfi áfram. Í upphafi kjörtímabilsins gerðum við breytingar á gámasvæðinu sem hafa gengið vonum framar. Þar ber að þakka bæjarbúum og ekki síst starfsfólki gámasvæðisins sem hefur leiðbeint bæjarbúum og verið sanngjarnt í sínum störfum. Einnig settum við á laggirnar Vistorku, dótturfyrirtæki Norðurorku, sem heldur utan um umhverfisvænar orkulausnir á svæðinu, á borð við metanstöðina, lífdísil og fræðslu um umhverfismál. Eitt af mikilvægustu verkefnum Vistorku er svo verkefnið Kolefnishlutlaus Akureyri, sem hefur vakið athygli um allan heim og skapar mikil tækifæri fyrir okkur í markaðssetningu Akureyrar á heimvísu.

Umhverfismál koma öllum við

Metnaðarfull umhverfis- og samgöngustefna Akureyrarbæjar var samþykkt á kjörtímabilinu. Á meðal aðgerða sem við viljum ráðast í er að Akureyri verði plastpokalaust samfélag. Þar viljum við í Samfylkingunni lyfta Grettistaki. Stór hluti Akureyringa tekur með sér fjölnota poka í verslanir en við getum gert enn betur. Til að Akureyri verði plastpokalaust samfélag þurfum við samstarf við fyrirtæki og bæjarbúa. Ef Frakkland, með sína 19 milljónir íbúa, getur ákveðið að verða plastpokalaust samfélag þá ættum við á Akureyri að geta gert slíkt hið sama. Til dæmis geta fyrirtæki boðið upp á umhverfisvænar umbúðir og jafnframt sett kröfur á birgja sína að minnka plastumbúðir sé það möguleiki. Eins mættu fyrirtæki vera opin fyrir hugmyndum frá viðskiptavinum og bæjarbúum um umhverfisvænar lausnir.

Umhverfismál eiga ekki að vera einkamál sveitarfélagsins heldur samvinnuverkefni fyrirtækja, íbúa og sveitarfélagsins. Umhverfismál koma okkur öllum við.

Höfundur er Dagbjört Pálsdóttir bæjarfulltrúi og framjóðandi Samfylkingarinnar á Akureyri

UMMÆLI

Sambíó