Rakel gefur lagið Something: „Tímabundin útrás fyrir allar þessar viðkvæmu og kjánalegu tilfinningar“

Rakel gefur lagið Something: „Tímabundin útrás fyrir allar þessar viðkvæmu og kjánalegu tilfinningar“

Lagið Something eftir Akureyringinn Rakeli Sigurðardóttur kom út í dag. Lagið er er þriðji singúll af væntanlegu samstarfsverkefni þriggja ungra og upprennandi tónlistarkvenna, en auk Rakelar standa að því hin danska ZAAR og Salóme Katrín frá Ísafirði. Lagið er aðgengilegt á öllum helstu streymisveitum og þú getur einnig hlustað á það í spilaranum hér að neðan.

Samstarfsverkefni tónlistarkvennanna þriggja er svokölluð „split“ skífa, líkt og þekkist helst úr pönk heiminum, en gripurinn heitir While We Wait og kemur út stafrænt 25. febrúar og svo á vínyl stuttu síðar.

Rakel segir að lagið Something sé ástarlag sem hún samdi þegar að hún var að byrja í nýju sambandi. „Það lýsir kannski svolítið tilfinningunni þegar maður er ennþá smá að reyna að halda kúlinu og ekki alveg tilbúinn til þess að segja allt það sem maður er að hugsa upphátt. Svo lagið var svona tímabundin útrás fyrir allar þessar viðkvæmu og kjánalegu tilfinningar,“ segir hún.

Hún segist hafa átt erfitt með að deila laginu með fólki til að byrja með vegna þess að það er svo fullt af nýjum og viðkvæmum tilfinningum.

Á endanum safnaði ég upp kjarki og fór með það í heimsókn til góðs vinar míns og tónlistarmanns, Axels Flóvent. Mig langaði til þess að lagið yrði bæði hljóðlátt og kraftmikið á sama tíma, svolítið eins og tilfinningarnar mínar á þessum tíma. Þær voru mjög háværar og sterkar en á sama tíma ekki tilbúnar til þess að berskjaldast, mig langaði til þess að reyna að spegla það í hljóðheiminum. Við Axel komum laginu fyrir í einhverskonar shoegaze heimi og síðan tók ég það upp með öðrum hæfileika vini, Hafsteini Þráinssyni, en hann spilar á gítar og bassa í laginu. Svo má ekki gleyma Svanhildi Lóu, en hún spilaði á trommu.“

Rakel Sigurðardóttir er fædd og uppalin á Akureyri. Hún hóf fiðlunám sex ára gömul við Tónlistarskólann á Akureyri og jazz söngnám síðar meir. Árið 2015 flutti hún til Reykjavíkur og hélt áfram tónlistarnámi við tónlistarskóla FÍH og útskrifaðist þaðan vorið 2020.

Rakel hefur komið fram með ýmsu tónlistarfólki í gegnum árin en hóf nýlega að gefa út sína eigin tónlist. Árið 2021 gaf hún út sína fyrstu stuttskífu, Nothing Ever Changes, sem fékk góðar undirtektir. Lagið Our Favourite Line komst inn á vinsældalista Rásar 2 og á toppinn á vinsældalistanum hjá X-ið 977. Hún gaf einnig út lagið Ég var að spá með JóaPé og CeaseTone og hlaut það lag miklar vinsældir, en það lag er einmitt tilnefnt sem lag ársins á Hlustendaverðlaununum. RAKEL er þar einnig tilnefnd í tveimur flokkum, sem nýliði ársins og söngkona ársins.

Hlustaðu á lagið Something:

UMMÆLI