Rannsóknir á Örverulífríki í Öxarfirði

Á myndinni má sjá sýnatökuhópinn við Skógalón í september 2015. Jón Pétur Jóelsson, Helga Helgadóttir, Guðný Vala Þorsteinsdóttir, Finnbogi Óskarsson, og Anett Blischke söfnuðu sýnum til efnagreininga, erfðaefnisgreininga og örveruræktunar.

Háskólinn á Akureyri og Orkustofnun hafa skrifað undir samning sín á milli um rannsóknir á örverulífríki gasaugna í Öxarfirði. Verkefnið er áframhald á rannsóknum undanfarinna tveggja ára þar sem nemendur og kennarar við HA hafa ásamt sérfræðingum frá Orkustofnun og ÍSOR rannsakað örverur sem þrífast í gasaugum á Austursandi í Öxarfirði, þar sem metangas streymir upp úr sandinum.

Tilgangur rannsóknanna er margþættur. Meðal rannsóknaspurninga má nefna:

  • hvort uppruna gassins sé að leita í kolalögum undir sandinum,
  • hvort nýta megi örverulífríki gasuppstreymisaugna til að spá fyrir um kol eða olíu í undirliggjandi jarðlögum,
  • hvort örverurnar megi nýta til hreinsunar á olíuefnum úr menguðu umhverfi, svo sem eftir mengunarslys, við íslenskar aðstæður.

Samninginn undirrituðu Þórarinn Sveinn Arnarson, verkefnisstjóri eldsneytismála og orkuskipta, fyrir hönd Orkustofnunar og Oddur Vilhelmsson, prófessor í líftækni, fyrir hönd Háskólans á Akureyri.

 

UMMÆLI

Sambíó