Halldór Magnússon, eigandi Imperial á Akureyri, segir að staða hans sem eigandi og rekstraraðili tískuvöruverslunarinnar sé orðin óviss eftir 17 ár af stöðugum rekstri. Þessu greinir hann frá í pistli á Facebook-síðu Imperial í dag.
„Það er mér bæði erfitt og mikilvægt að deila því að staða mín sem eigandi og rekstraraðili Imperial á Glerártorgi er orðin óviss — eftir 17 ár af stöðugum rekstri, traustu samstarfi og tengingu við ykkur sem hafa stutt mig í gegnum súrt og sætt,“ skrifar Halldór.
Hann segir að undanfarin ár hafi rekstrarumhverfið á Glerártorgi breyst og að litlum, staðbundnum fyrirtækjum eins og Imperial hafi verið gert erfiðara um vik á meðan alþjóðlegar keðjur fái hagstæðari skilyrði.
„Þrátt fyrir viðleitni mína til samræðu og lausna hefur ekki verið hlustað. Ég segi þetta ekki til að vekja vorkunn. Ég segi þetta vegna þess að mér þykir vænt um þetta samfélag. Mér þykir vænt um ykkur — og um rétt minn til að starfa á jafnréttisgrundvelli í mínum eigin heimabæ. Imperial er meira en búð. Það er lífsstarf, minningar, draumar — og sameiginlegt rými. Nú stendur það í hættu.“
„Ég mun standa með sannleikanum, tala af virðingu og halda áfram að berjast fyrir því sem mér finnst rétt. Ég trúi því að við sem samfélag getum spurt okkur: Hver viljum við að skipi verslunargötur bæjarins okkar? Hverjir fá að blómstra — og hverjir gleymast?,“ skrifar Halldór sem segist muna segja meira frá aðstæðum síðar en að hann hafi viljað deila þessum stað á ferðalaginu með samfélaginu í dag.
UMMÆLI