Rektor Háskólans á Akureyri ræðir kynbundið ofbeldi

Á vefsíðu Háskólans á Akureyri birtist tilkynning frá rektor skólans, Eyjólfi Guðmundssyni, þar sem hann ræðst á kynbundið ofbeldi. Kveikja pistilsins er sú að vísindakonur í íslensku vísindasamfélagi hafa opnað umræðuna mikið upp á síðkastið og hafa allar þurft að þola kyndbundið ofbeldi í námi og starfi.
Við birtum tilkynningu Eyjólfs í heild sinni og leyfum honum að tala sínu máli.

Eyjólfur Guðmundsson, rektor við Háskólann á Akureyri. Mynd: unak.is.

Í gærkvöldi birtu vísindakonur í íslensku vísindasamfélagi sögur sem lýsa því hvernig kynbundið ofbeldi og valdbeiting gagnvart konum hefur viðgengist í vísindasamfélaginu, líkt og í svo mörgum öðrum samfélögum. Ég heyri ákall þeirra skýrt og er stoltur af því að konur í vísindasamfélaginu séu reiðbúnar að stíga fram og benda okkur á, með frásögnum sínum, að kynbundið ofbeldi á aldrei að líðast.

Málið er í raun einfalt – kynbundnu ofbeldi og kynbundnu óréttlæti verður að linna – og því verða vísindastofnanir að tryggja að unnt sé að taka á slíkum málum af festu, ábyrgð og með virkum stuðningi við þolendur.

Við lestur á reynslusögum kvenna úr vísindaheiminum er einkum þrennt sem vakti sérstaka athygli mína. Í fyrsta lagi að það skuli enn tíðkast að beint og óbeint vald sé notað til niðurlægingar á konum í vísiandastarfi og félagslífi sem tengist slíkum störfum, í öðru lagi að verkferlar og stuðningur sem er til staðar í dag sé ekki nóg til þess að konum finnist að þær geti óhultar stigið fram og leitað réttar síns, og í þriðja lagi að það skuli þekkjast að karlkyns nemendur áreiti og sýni kvenkyns kennurum kynbundna óvirðingu og áreiti. Allt eru þetta atriði sem Háskólinn á Akureyri verður að taka til sín og tryggja að slíkt viðgangist ekki innan veggja okkar vísinda- og námssamfélags.

En hvað er hægt að gera? Og hvað eigum við að gera?

Í fyrsta lagi, sem karlmaður, get ég einfaldlega byrjað hjá sjálfum mér. Með því að lesa frásagnir vísindakvenna og aðrar frásagnir sem fram hafa komið á síðustu vikum hef ég lært mikið um það hvernig ég get tryggt mitt framlag til þess að bæta aðstæður. Við karlmenn eigum að taka fulla ábyrgð, ekki bara á sjálfum okkur, heldur líka á hegðan sem við verðum vitni að og vitum að á ekki að eiga sér stað. Með því að standa með konum þegar brotið er á þeim leggjum við okkar af mörkum og sýnum stuðning í verki. Með því að mótmæla harðlega við kynbræður okkar þegar við heyrum óviðurkvæmilegar athugasemdir, gróft orðlag og niðurlægjandi ummæli erum við að sýna að við líðum ekki kynbundið ofbeldi. Ef við verðum vitni að beitingu valds, ofríkis eða beinu líkamlegu ofbeldi þá kærum við slíkt strax samkvæmt okkar verklags- og siðareglum.

Í öðru lagi get ég sem rektor sagt við allar konur sem starfa innan háskólasamfélagsins við HA að ég heyri ákall ykkar skýrt. Ég lýsi mig reiðubúinn til þess að vinna með ykkur að því markmiði að HA sé góður, öruggur og hvetjandi vinnustaður fyrir konur jafnt sem karla. Konur í vísindasamfélaginu eiga ekki að þurfa að sanna sig umfram karlmenn í starfi, þær eiga ekki að þurfa að tipla í kringum slæma hegðun karlmanna og þær eiga aldrei að þurfa að horfa til baka með hnút í maga yfir atvikum eða atburðum í starfi þar sem þær telja að þær hafi verið órétti beittar vegna kyns.

Í sameiningu getum við öll tekið til okkar þessar ábendingar og nýtt þær til að gera góðan háskóla enn betri, og jafnvel til fyrirmyndar. Við eigum okkar verkferla og siðareglur en það er ekki nóg ef konur eru ekki tilbúnar að nýta þá vegna ótta við afleiðingar þess að ná fram rétti sínum. Það er því hlutverk mitt að byggja upp traust á þeim verkferlum og siðareglum sem við eigum með því að beina umkvörtunum á faglegan, öruggan og skilningsríkan hátt í rétta farvegi innan okkar kerfis. Ég heiti því á þessari stundu að ég mun sinna þeim hluta starfs míns af sérstakri kostgæfni og alúð. Ég hvet alla sem telja sig vita um mál af þessum toga, hvort sem það eru eigin mál eða mál annarra, að koma á framfæri ábendingum til rektorsskrifstofu. Ég mun veita þeim sem hafa þurft að þola slíkt í okkar samfélagi allan minn stuðning og taka á þeim málum án tafar.

Það eru mannréttindi að fá að stunda starf sitt í öryggi og vissu um sanngjarnt mat án tillits til kyns eða annarra þátta sem aðgreina okkur. Við berum öll ábyrgð á því að þau mannréttindi séu virt innan okkar háskólasamfélags og endurspeglast í því að okkur ber að koma fram af virðingu við hvert annað.

Í frásögn vísindakvenna er margtekið fram að þær hafi fengið stuðning frá bæði körlum og konum þegar á hefur reynt. Það sýnir okkur að ef við stöndum saman, karlar og konur, þá getum við unnið þetta skrímsli sem kynbundið ofbeldi er því slíkt ofbeldi, líkt og allt ofbeldi, hefur slæm áhrif á okkur öll.

Með vinsemd og virðingu,
Eyjólfur Guðmundsson, rektor
Háskólinn á Akureyri

 


UMMÆLI

Sambíó