Rennibrautirnar lokaðar tímabundið – ,,Það var alltaf vitað að við þyrftum að loka þeim einhvern tímann“

Rennibrautirnar í Sundlaug Akureyrar eru lokaðar tímabundið vegna framkvæmda.

Nýju rennibrautirnar í Sundlaug Akureyrar hafa verið mjög vel sóttar í sumar en eins og Kaffið greindi frá fjölgaði gestum um 26.000 í júlí og ágúst. Gestir eru heilt yfir mjög ánægðir með brautirnar.
Nú hefur þeim hins vegar verið lokað tímabundið vegna framkvæmda en stefnt er að því að þær opni aftur næsta föstudag, 22. september.
Einhverjir hafa meitt sig lítilega í brautunum og eitt slys átt sér stað þar sem meiðslin voru aðeins meiri. Elín Gísladóttir, forstöðumaður í Sundlaug Akureyrar, segir framkvæmdirnar ekki tengjast slysinu neitt.

,,Því miður þá vilja gerast slys. Starfsfólkið leggur mikla áherslu á það að fólk sé að renna sér rétt og fara eftir reglum. Það er mjög mikilvægt svo að allir hafi gaman að og komi heilir heim en það verður að fara eftir settum reglum. Aldrei með höfuðið á undan eða andlitið að rennibrautinni,“ segir Elín.

Hún segir slysin gerast vegna gáleysis að hálfu þeirra sem eru að renna sér. Reglurnar eru til þess að forðast slysin, ef allir færu eftir þeim þá verða ekki slys. Hún ítrekar að þessar framkvæmdir tengjast slysinu ekki neitt.
,,Við förum alltaf í gegnum verklagsreglur þegar slys verður en lokunin tengist ekki slysinu.“

Framkvæmdirnar segir hún hafa verið óhjákvæmilega þar sem ýmislegt var ekki fullklárað fyrir opnun í sumar. Það er verið að festa gúmmímotturnar almennilega í kringum laugina, breyta vatnsstreymi að einhverju leyti og setja upp hlífar fyrir vatni svo fólk geti ekki stíflað vatnsstreymi. Svo eru brautaframleiðendur einnig að kíkja við í almennt eftirlit með rennibrautunum.

,,Það var alltaf vitað að við þyrftum að loka þeim einhverntímann. Það var bara spurning hvenær.“

UMMÆLI