Ricardo González og Lidia Mirchandani ráðin til Þórs

Ricardo González og Lidia Mirchandani ráðin til Þórs

Körfuknattleiksdeild Þórs hefur gengið frá ráðningu tveggja þjálfara með mikla alþjóðlega reynslu í lykilstöður innan deildarinnar. Ricardo González Dávila og Lidia Mirchandani, taka formlega til starfa hjá félaginu í byrjun ágúst. Ricardo mun taka við sem aðalþjálfari meistaraflokks kvenna og gegna jafnframt hlutverki aðstoðarþjálfara hjá meistaraflokki karla. Lidia verður í þjálfarateymi meistarflokkanna ásamt því að leiða þjálfun og þróun yngri flokka sem þjálfari í barna- og unglingastarfi.

Ricardo þjálfaði kvennalið Skallagríms tímabilið 2017–2018 og Lidia lék þá jafnframt með liðinu sem leikstjórnandi. Í kjölfarið hóf hún þjálfunarferil hér á landi og starfaði um árabil hjá körfuknattleiksdeild Keflavíkur við þjálfun stúlkna í yngri flokkum. Hún stýrði liði Keflavíkur til Íslandsmeistaratitils í ungmennaflokki kvenna árið 2023. Bæði Ricardo og Lidia hafa yfirgripsmikla reynslu af þjálfun bæði innan Evrópu og víðar, og hafa unnið með landsliðum og félagsliðum á Spáni, í Asíu, Suður-Ameríku og á Norðurlöndum.

„Þekking þeirra á íslensku körfuboltaumhverfi og áhersla á faglega uppbyggingu og langtímaþróun leikmanna gerir þau afar vel í stakk búin til að leiða áframhaldandi þróun körfuknattleiks hjá Þór. Ráðningin, sem er til þriggja ára, er með það að markmiði að skapa festu og stöðugleika í öllu starfi deildarinnar og byggja upp metnaðarfulla afreksstefnu til framtíðar,“ segir í tilkynningu frá Þór.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó