Rosita ætlar að kæra RÚV og sakar fréttastofu um rasisma

Rosita Yufanzhang, eigandi Sjanghæ.

Rosita YuFan Zhang, eigandi veitingastaðarins Sjanghæ á Akureyri, hyggst stefna Rúv vegna fréttar sem þau gerðu um staðinn í lok ágúst. Staðurinn hefur verið lokaður síðan fréttin var birt í kvöldfréttum Rúv um meint vinnumansal á staðnum sem reyndist ekki rétt eftir athugun Einingar-Iðju á málinu. Rúv hefur gefið út yfirlýsingu vegna málsins og sagði þá Einingu-Iðju bera einhverja sök í málinu sem Eining-Iðja svaraði og sögðu sökina liggja eingöngu hjá fréttastofu fyrir ófa

gleg vinnubrögð.

DV greinir frá því að Rosita sé miður sín vegna fréttarinnar og sakar fréttastofu Rúv um rasisma. Hún segir dóttur sína hafa verið viðstadda þegar fréttamenn komu inn á staðinn þegar umrædd frétt var tekin upp á veitingastaðnum og gagnrýnir það að fréttamenn hafi ekki látið hana vita af komu sinni á staðinn, heldur hafi þeir tekið hana og starfsmenn upp í leyfisleysi. Dóttir Rositu er átta ára og gerði sér því ekki grein fyrir hvað var eiga sér stað og faldi sig fyrir áreitinu og grét.

 „Dóttir mín var með mér og varð vitni af því þegar móðir hennar var króuð af af fréttamönnum, svo hún faldi sig inni á veitingastaðnum hágrátandi. Þessi framkoma og fréttaflutningur virkaði eins og hnífur sem beitt var á fjölskyldu mína. Fréttamenn RÚV eiga að leita sannleikans og hafa réttlæti að leiðarljósi í sinni vinnu, í stað þess að valda saklausu fólki skaða!
Af hverju fékk ég enga tilkynningu fyrirfram og var matreiðslumönnunum sýnd virðing við þessa framkvæmd? Voru þeir spurðir hvort mætti taka myndir af þeim og sýna í sjónvarpinu? Þar sem ég fékk enga tilkynningu fyrirfram þá gafst mér ekki einu sinni tækifæri til að forða barninu frá atburðinum. Barnið mitt er átta ára! Hún skilur ekki hvað var að gerast, og enginn í fjölskyldunni skilur heldur hvers vegna þið gerðuð þetta. Ég, ásamt allri fjölskyldunni, erum gjörsamlega orðlaus!,“ segir Rosita en hún segir fréttina hafa haft svakalega slæm áhrif á rekstur veitingastaðarins.

„Í fjölmiðlum er fjallað um raunverulega atburði. Fréttamenn þurfa að viðhafa fagleg vinnubrögð á siðferðilegum grunni. Þessu vörpuðuð þið öllu fyrir róða, enga virðingu var að finna, né nokkur samkennd. Öll framkoma fréttamanna var með ólíkindum og farið var með ósannindi og móðgandi ummæli í fréttatímann til að auka áhorfið. Þetta er með ólíkindum! Daginn eftir að fréttin var flutt kom ekki nokkur maður á veitingastaðinn Sjanghæ á Akureyri!! Áhrif þessarar fréttar á orðspor veitingastaðarins, míns og annarra fyrirtækja í minni eigu, ásamt fjölskyldu minnar allrar, er mikið og særandi.

Dóttir okkar fékk mikið áfall, grét í sífellu og þorði ekki í skólann, fékk háan hita og kvef og spurði mig í sífellu hvort lögreglan væri að koma og setja mömmu í fangelsi! Ég vil spyrja RÚV: Hvað í ósköpunum hef ég gert rangt? Ég hef búið á Íslandi í 20 ár og langt er síðan ég gerðist íslenskur ríkisborgari. Eiginmaður minn er íslenskur, dóttir mín er bæði af kínversku og íslensku bergi brotin. Ég hef lengi litið á sjálfa mig sem Íslending, og kom því á óvart þegar ég var kölluð kínverskur eigandi veitingastaðar. Er þá sama hvað maður leggur sig fram, þá verður alltaf litið á mann sem útlending? Gæti þetta ekki sært þá innflytjendur sem hafa reynt að leggja hart að sér fyrir Íslands hönd?

Er RÚV alveg sama um mig af því að ég er ættuð frá Kína eða hvað veldur því að fréttakonan geti flutt svona fréttir án þess að svo mikið sem hika, og beinlínis logið framan í landsmenn? Þó svo að áhrifamesti fjölmiðill landsins níðist á mér, þessari örsmáu persónu, gerir það kannski ekki mikið til. En landsmenn treysta því sem kemur fram á RÚV og trúa því sem sagt er af fréttamönnum RÚV. Svo þarf ég að berjast fyrir því að koma sannleikanum á framfæri svo við fjölskyldan getum farið út úr húsi meðal fólks. Mun fólk bera sama traust til RÚV eftir þennan atburð?“ segir Rosita um fréttaflutninginn.

Sjá einnig:

Eining-Iðja sendir út yfirlýsingu vegna Sjanghæ – RÚV ber alla ábyrgðina

Sambíó

UMMÆLI